Fjölmenn mótmæli vegna hvarfs námsmanna fyrir átta árum

epa10200206 Police officers injured during a march for the disappeared students of Ayotzinapa in Mexico City, Mexico, 22 September 2022. A few days after the eighth anniversary of the disappearance of the students, dozens of people gathered in front of the Attorney General's Office (FGR) with banners of the disappeared students and slogans such as 'Alive they took them away, alive we want them back'.  EPA-EFE/Sashenka Gutierrez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Upp úr sauð í mótmælum í Mexíkóborg þar sem réttlætis var krafist til handa 43 kennaraháskólanemum sem hurfu í Guerrero-fylki árið 2014. Ellefu lögreglumenn særðust í átökum við mótmælendur.

Mótmælin í gær voru framan við skrifstofur ríkissaksóknara en fólk hefur safnast saman víða í borginni þessa viku og krafist handtöku þeirra sem málinu tengjast.

Á miðvikudag komu ættingjar nemendanna saman við sendiráð Ísraels og kröfðust framsals Tomasar Zeron, sem hafði yfirumsjón með rannsakendum og vettvangsrannsókn rannsóknarlögreglunnar.

Námsmennirnir hurfu í lok september 2014 en aðeins hafa fundist líkamsleifar þriggja þeirra. Þeir voru á leið til borgarinnar Iguala til að taka þátt í mótmælum en voru handteknir á leiðinni.

Að sögn stjórnvalda í Mexíkó seldu spilltir lögreglumenn þá í hendur liðsmanna glæpagengis sem myrti þá og brenndi líkin.

Fyrrverandi saksóknari í Mexíkó, Jesus Murillo Karam, var handtekinn í síðasta mánuði. Hann var ákærður fyrir þvingað brotthvarf, pyntingar og hindrun á framgangi réttvísinnar.

Karam er ásamt Zeron einn hugmyndasmiða opinberrar útgáfu þess sem átti sér stað þegar nemarnir hurfu. Skýrsla byggð á henni birtist þegar árið 2015 í forsetatíð Enrique Pena Nieto en ættingjar hinna horfnu höfnuðu henni alfarið.

Saksóknari segir handtökutilskipanir hafa verið gefnar út á hendur 80 manns, þeirra á meðal her- og lögreglumönnum og liðsmönnum glæpahringja.