Erindi um ummæli Sigurðar Inga vísað frá

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd
Erindi um ummæli Sigurðar Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um Vigdísi Häsler, framkvæmdastjóra Bændasamtakanna, hefur verið vísað frá forsætisnefnd Alþingis. 

Sigurður Ingi lét niðrandi ummæli falla um Vigdísi í kvöldverðarboði Framsóknarflokksins á Búnaðarþingi í mars á þessu ári. Aldrei fékkst nákvæmlega staðfest hver ummælin voru en þau sneru að litarhafti Vigdísar.

Sigurður Ingi bað Vigdísi afsökunar, sem hún tók til greina og því kemst forsætisnefnd að þeirri niðurstöðu að málinu skuli vísað frá á grundvelli þess að frekari upplýsingar skorti. Birgir Ármannsson, forseti Alþingis, skrifar undir bréf þess efnis til Sigurðar Inga og vísar til þess að ágreiningur um málið sé enginn. Það grundvallist á því að sátt hafi náðst milli Sigurðar Inga og Vigdísar. Birgir vísar svo til niðurstöðu í sams konar máli á hendur Ágústi Ólafi Ágústssyni, fyrrverandi þingmanni Samfylkingarinnar, sem sakaður var um að brjóta gegn siðareglum þingmanna þegar hann beitti konu kynferðislegu áreiti. 

Minnihluti forsætisnefndar hafnar niðurstöðunni. Við afgreiðslu erindisins í forsætisnefnd lögðu Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Flokki fólksins, og Jódís Skúladóttir, Vinstri grænum, ásamt áheyrnarfulltrúunum Andrési Inga Jónssyni, Pírötum, og Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, Viðreisn, sameiginlega fram bókun um málið. Þar segir að „hinn eðlilegi farvegur málsins hefði verið að fá ráðgefandi siðanefnd sem fyrst til að leggja mat á málið, og hvort um brot var að ræða og gefa álit sitt að því loknu, frekar en að vísa erindinu nú frá á grundvelli takmarkaðra upplýsinga.“

Málsmeðferðin fari gegn tilgangi og markmiðum siðareglna fyrir alþingismenn að efla tiltrú og traust almennings á Alþingi.

oddurth's picture
Oddur Þórðarson
Fréttastofa RÚV