Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Beint úr gæsluvarðhaldi í fyrirhuguð fjöldamorð

23.09.2022 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Mennirnir tveir sem grunaðir eru um að skipuleggja hryðjuverk hér á landi eru sagðir hafa beint sjónum sínum að árshátíð lögreglumanna sem á að vera í næstu viku. Annar þeirra losnaði úr gæsluvarðhaldi einum sólarhring áður en hann var handtekinn í aðgerðum sérsveitarinnar í fyrradag.

Heimildir fréttastofu herma að mennirnir tveir hafi rætt um að fremja fjöldamorð á árshátíð lögreglumanna 1. október. Síma- og tölvugögn hafi fundist þar sem þeir hafi notað orðalagið fjöldamorð og nefnt lögreglumenn, Alþingi og fleira í því samhengi. Ekki liggur fyrir hver ásetningur þeirra var. Til rannsóknar er hvort þeir tengjast norrænum öfgahópum og hvort þeir hafi litið sérstaklega til Anders Breivik, sem myrti 77 ungmenni í Útey í Noregi árið 2011. 

Sleppt úr haldi sólarhring áður

Þá hefur fréttastofa upplýsingar um að annar þeirra hafi verið látinn laus úr gæsluvarðhaldi 20. september, einum degi áður en hann var handtekinn að nýju í umfangsmiklum aðgerðum sérsveitarinnar. Hann hafði þá sætt einangrun í eina viku vegna gruns um vopnalagabrot fyrr á þessu ári. Sá maður var aftur úrskurðaður í vikulangt gæsluvarðhald í gær. Hinn maðurinn var úrskurðaður í tveggja vikna varðhald. 

Gríðarlegt magn af skotvopnum og skotfærum fundust við rannsókn málsins, meðal annars hálfsjálfvirkar byssur - sem eru skotvopn sem hægt er að skjóta úr, einu skoti á eftir öðru, án þess að hlaða á milli - auk þrívíddarprentara sem notaðir voru við framleiðslu vopnanna. Þá leikur grunur á að mennirnir hafi einnig staðið að sölu skotvopna. 

Lögregla gaf ekki kost á viðtali vegna málsins í dag.