Segir verðhækkanir hafa áhrif á komandi kjaraviðræður

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Útgjöld heimilanna hafa hækkað um allt að tæplega 130.000 krónur miðað við fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði. Verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ segir mikla hækkun hafa orðið á nauðsynjavörum og segir vonbrigði að nýtt fjárlagafrumvarp hafi ekki komið til móts við heimilin.

Hækkun útgjalda fjögurra manna fjölskyldu í eigin húsnæði nemur allt að 128.607 krónum á mánuði ef miðað er við útgjöld hennar fyrir ári síðan, samkvæmt samantekt verðlagseftirlits ASÍ. Útgjöld einstaklings með tvö börn í leiguhúsnæði hafa hækkað að meðaltali um tæplega 35.000 krónur á mánuði. Hjá húsnæðiseigendum er miðað við óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum. Dæmin ná utan um helstu kostnaðarliði heimilanna.

Verð á nauðsynjavöru hefur hækkað mikið

Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnastjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir matvöru, bensín og húsnæði vega þyngst, en það séu þeir liðir í vísitölu neysluverðs sem hafi hækkað mest. „Þetta er bara verð á nauðsynjavöru sem er að hækka þarna mikið. Það er í raun og veru ómögulegt fyrir fólk að breyta kauphegðun sinni og þannig reyna að minnka áhrif verðbólgunnar á fjárhag heimilisins.“

Hún segir húsnæðiseigendur með óverðtryggð lán á breytilegum vöxtum koma verr út úr hækkunum en leigjendur.

„Leiga hefur hækkað minna en húsnæði núna frá því að Covid fór af stað. En við höldum kannski að þetta sé smá svikalogn og þessar hækkanir eigi eftir að fara af stað aftur, enda er ferðamannastraumurinn farinn af stað, sem eykur þrýsting á eftirspurnarhliðina á húsnæðismarkaði.“

Tekjulágir hópar verða illa úti

Auður Alfa segir lægri tekjuhópa hafa orðið hvað verst úti í verðhækkunum.

„Þessar hækkanir á nauðsynjavörum lenda langverst á þeim hópum.“

Hún segir hækkanir hafa lagst þungt á heimilin. „Hvort sem fólk er með óverðtryggða breytilega vexti á lánum eða ekki, þá er þetta bara verð á vörum sem við erum öll að kaupa dags daglega. Þannig að auðvitað kemur það illa niður á heimilunum.“

Fjárlagafrumvarpið var vonbrigði

Auður Alfa segir að ASÍ hefði viljað sjá stjórnvöld grípa inn í.

„Og vorum bara ansi hissa á því sem kom fram í þessu fjárlagafrumvarpi sem var verið að kynna um daginn fyrir næsta ár. Þar sjáum við að það er verið að hækka gjöld enn frekar. Það er verið að hækka bæði bensíngjöld og kolefniskatta og það eru auðvitað bara flatir skattar sem koma verst niður á þeim sem minnst hafa.“

Hún bætir við að frumvarpið sé ekki í takt við ástandið í þjóðfélaginu.

„Það ýtir enn frekar undir það að verkalýðshreyfingin þurfi að ná þessum kostnaðarhækkunum til baka í samningum núna á næstu mánuðum.“

Hún bendir á að hækkun stýrivaxta hafi ekki áhrif á eftirspurn eftir nauðsynjavöru. Það sé því ekki tól sem geti dregið úr þeirri verðbólgu. „Við hefðum viljað sjá aðrar aðgerðir til þess að stemma stigu við þessu.“