Rússneskt íþróttafólk enn í banni en ekkert útilokað

epa10196939 Thomas Bach, President of the International Olympic Committee (IOC), speaks during a memorial ceremony for the 1972 Munich massacre victims, in Tel Aviv, Israel, 21 September 2022. Bach is on a two-day official visit to Israel to commemorate the 50th anniversary of the Munich massacre of 1972, when members of the Black September Palestinian terrorist group infiltrated the Olympic village in Munich, killing 12 people, including 11 members of the Israeli delegation to the Summer Olympic Games.  EPA-EFE/ABIR SULTAN 656
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Rússneskt íþróttafólk enn í banni en ekkert útilokað

22.09.2022 - 09:56
Thomas Bach forseti IOC, Alþjóða Ólympíunefndarinnar vill að Ólympíuhreyfingin gangi á undan með fordæmi um frið. Í gær, á alþjóðlegum degi friðar gaf hann í skyn að hann vildi finna leið fyrir rússneskt íþróttafólk til að koma aftur til keppni á alþjóðleg mót.

Rússneskt íþróttafólk hefur verið í banni frá alþjóðlegri íþróttakeppni eftir innrás Rússlands í Úkraínu. Fjölmörg íþróttasambönd hafa einnig bannað hvítrússneskt íþróttafólk vegna aðstoðar hvítrússneskra yfirvalda við innrás Rússa í Úkraínu. Þó hafa hvítrússnesk fótboltalið fengið að halda keppni áfram, en ekki getað leikið heimaleiki sína í Hvíta-Rússlandi.

Ekki hafa þó öll alþjóðleg íþróttasambönd bannað rússneskt íþróttafólk. Til dæmis fengu Rússar leyfi til að keppa á HM í júdó í Úsbekistan 6. - 13. október. Rússneska júdósambandið gaf hins vegar út á þriðjudag að það boð yrði ekki þegið og Rússar myndu ekki mæta. Í gær barst Rússum herkvaðning frá Vladimir Pútín Rússlandsforseta þar sem hann kallaði eftir 300 þúsund manna varaliði Rússa vegna innrásarinnar í Úkraínu.

Ólympíuhreyfingin eigi ekki að standa fyrir sundrungu

„Ólympíuleikar geta ekki komið í veg fyrir stríð og átök. Þeir geta ekki tekið á öllum pólitískum og félagslegum áskorunum í heiminum. En þeir geta verið fordæmi fyrir heim þar sem allir virða sömu reglur fyrir hvern annan,“ sagði Bach í gær.

Eftir ræðu Bach í gær leitaði fréttasíðan Inside The Games eftir frekari útskýringum frá IOC. Í yfirlýsingu frá IOC kom svo fram að alþjóðleg íþróttasambönd séu enn hvött til þess að banna rússneskt og hvítrússneskt íþróttafólk frá alþjóðlegri keppni vegna stríðsins í Úkraínu. Hins vegar sé það skýr sýn Ólympíuhreyfingarinnar að sameina en ekki sundra. Hvort það þýði þá að reynt sé að finna leið fyrir rússneskt íþróttafólk aftur inn á alþjóða sviðið skal ósagt látið. Thomas Bach forseti IOC hefur lýst eindregnum stuðningi við Úkraínu og ítrekaði í gær hve mikilvægt væri að koma á friði.