Katrín: Mikilvægt að halda áfram að efla lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra telur mikilvægt að halda áfram að efla lögreglu til að tryggja að hún hafi burði til þess að takast á við stór mál. Hún fékk fyrst í gær veður af rannsókn og aðgerðum lögreglu gegn fjórum mönnum sem grunaðir eru um skipulagningu hryðjuverka. Lögregla ítrekar að samfélaginu sé ekki hætta búin.

Forsætisráðherra sagðist í viðtali í kvöldfréttum hafa fengið upplýsingarnar þegar umfangsmiklar aðgerðir gærdagsins voru að hefjast. 

„Í kjölfarið voru fulltrúar í þjóðaröryggisráði upplýstir í algjörum trúnaði um þetta mál. Lögregla lagði á það mikla áherslu að ekkert færi út fyrr en þessum aðgerðum væri  lokið. Eðlilega er ég, eins og aðrir, slegin yfir þessari stöðu. Svo dapurlegt sem það nú er getum við átt von á þessu hér á Íslandi eins og annars staðar á Norðurlöndum. Þetta er sérlega óhugnalegt,“ sagði Katrín.

Á blaðamannafundi lögreglu fyrr í dag sagði Karl Steinar Valsson yfirlögregluþjónn að ætla megi að árásirnar hafi átt að beinast gegn Alþingi eða lögreglu. Katrín segir að sér sé ekki kunnugt um að neinum þingmönnum hafi verið hótað persónulega.

„Það sem liggur fyrir er hins vegar að þessar aðgerðir þessara aðila, þessi voðaverk, áttu að beinast gegn stofnunum ríkisins, sagði Katrín. Ekki hefur verið gefið upp hvaða stofnunum.

Þá sagði hún að því þurfi að halda til haga að lögregla hafi tekið vel utan um stöðu sem hefði getað orðið mjög hættuleg.

 Ég vil ítreka að það skiptir auðvitað gríðarlegu máli að lögreglan hafi burði til þess að geta tekist á við þetta. Hún sýndi svo sannarlega í þessu máli hvers hún er megnug,“ sagði forsætisráðherra. Miklu máli skipti að halda áfram að efla lögregluna.

Þá sagði Katrín að Íslendingar þurfi vissulega að horfast í augu við nýjan veruleika en að landsmenn þurfi ekki að lifa í ótta.

„Við lifum áfram í frjálsu samfélagi en erum meðvituð um að svona hlutir geta gerst. Þetta er auðvitað sérlega flókið því í þessu tilfelli er ekki um að ræða vopn sem eru flutt inn heldur beinlínis heimasmíðuð vopn með löglegum tækjum.“

Þórgnýr Einar Albertsson