Hjólið vel nothæft allan ársins hring á Íslandi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Amanda Guðrún Bjarnadóttir
Ráðstefnan Breyttar ferðavenjur fór fram í Menningarhúsinu Hofi í gær í tilefni af Evrópsku samgönguvikunni. Skipulagsfulltrúi Akureyrbæjar segir kröfu fólks um aðskilda göngu- og hjólastíga sífellt aukast, sérstaklega með rafvæðingu síðustu ára.

Vekja athygli á vistvænum og heilsueflandi ferðavenjum

Evrópska samgönguvikan stendur nú yfir og markmiðið er að kynna vistvæna, heilsueflandi og hagkvæma samgöngumáta. Ráðstefnan er einn liður í því þar sem vakin er athygli á möguleikum á breyttum ferðavenjum. Þar segir Pétur Ingi Haraldsson, skipulagsfulltrúi Akureyrarbæjar, Ísland vera þónokkuð á eftir öðrum þjóðum.

„Ísland er nú örugglega 20 árum á eftir allavega flestum löndum og kannski er ástæðan að við höfum ekki talið að reiðhjólið sé skynsamlegur ferðamáti svona norðarlega en það er bara að breytast.“

Hvers vegna telur þú það vera að breytast?

„Það er bæði bara umræðan, umræðan um mengun almennt og bætt lífsskilyrði og tækninýjungar.“
 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Amanda Guðrún Bjarnadóttir
Ráðstefnugestir skildu bílana að sjálfsögðu eftir heima

Vilja auka öryggi óvarinna vegfarenda

Pétur segir rafvæðingu síðustu ára hafa ýtt undir þörfina á fleiri og betri hjólastígum en nú hefur fyrsti aðgreindi hjóla- og göngustígurinn verið gerður á Akureyri. „Þetta kemur í raun og veru bara með vaxandi nýtingu á reiðhjólum og líka það að viljum hvetja til aukinnar nýtingar á reiðhjólum og ef fleira fólk nýtir stígana þá þarf að gera þá betri.“

Hann segir að búast megi við áframhaldandi þróun á aðgengi fyrir þessa óvörðu vegfarendur í bænum.

Bíllausi dagurinn í dag

Evrópsku samgönguvikunni lýkur svo í dag með bíllausa deginum þar sem fólk er hvatt til að nota umhverfisvæna og heilsusamlega samgöngumáta í stað bílsins.