Fréttahlaðvarp á pólsku nauðsynlegt

Mynd: Aðsend / RÚV

Fréttahlaðvarp á pólsku nauðsynlegt

22.09.2022 - 10:00

Höfundar

„Þangað til ég lærði íslensku nógu vel að ég var svolítið föst milli tveggja heima,“ segir Margrét Adamsdóttir fréttamaður. Hún hefur umsjón með nýjum hlaðvarpsþáttum þar sem farið er yfir það helsta sem er á döfinni á pólsku. Hún segir að það sé mikilvægt fyrir fólk af erlendum uppruna að vera hluti af samfélaginu til að einangrast ekki.

Wyspa er nýr vikulegur hlaðvarpsþáttur þar sem farið er yfir helstu fréttir vikunnar á Íslandi á pólsku. Þar er talað við áhugavert pólskumælandi fólk sem býr á Íslandi eða hefur tengingu við Ísland. Margrét Adamsdóttir hefur umsjón með þáttunum. Hún ræddi um hugmyndina að þáttunum og mikilvægi þess að aðlagast samfélaginu í Morgunútvarpinu á Rás 2.  

„Það þarf að gera þetta“ 

Hugmyndina að hlaðvarpsþáttunum fékk Margrét fyrir tíu árum. Henni fannst vanta einhvers konar hlaðvarp fyrir pólska samfélagið hér á Íslandi. „En ég vann ekki í fjölmiðlum svo það gerðist ekki í mínu lífi þangað til ég kom hingað,“ segir hún. 

Þegar Margrét réð sig til starfa á fréttastofu RÚV nefndi hún strax við yfirmenn sína að hana langaði til að gera þetta og fékk jákvæð viðbrögð, slíkan þátt væri nauðsynlegt að gera.  

Segja frá öllu því helsta 

Wyspa er fréttaþáttur þar sem fjallað um það helsta sem er að gerast á Íslandi. „Ekki kannski allt, þetta er náttúrulega enn að þróast. En við viljum að það væri útskýring á kannski helstu fréttunum, því sem skiptir mestu máli,“ segir hún. Einnig verður pólskur viðmælandi í hverjum þætti sem hefur frá einhverju áhugaverðu að segja. „Eitthvað sem hann eða hún geta deilt með samfélaginu. Annað hvort einhver reynsla eða eitthvað sem þau vinna með.“ 

Margrét segist einnig vilja taka hluta þáttarins undir menningarlega umfjöllun þar sem rætt yrði til dæmis um einhverja kvikmynd eða viðburði.  

„Þú ert aldrei að taka skref áfram“ 

Til pólska samfélagsins á Íslandi heyra um 20 þúsund manns. Margrét segir að þetta sé að nokkru leyti einangrað samfélag sökum þess að margir Pólverjar umgangist að miklu leyti eingöngu aðra Pólverja. „Þegar þú ert að umgangast alltaf samlöndum þínum, þá þróast ekki lífið þitt á neinn hátt. Þú aftengist samfélaginu hér. Þú ert aldrei að taka skref áfram.“  

Hún segir þættina hugsaða sem brú á milli menningarheimanna tveggja. Það séu margir Pólverjar sem tali ekki tungumálið nógu vel til að skilja hvað sé að gerast hér á landi en myndu þó vilja taka þátt. Það geti verið erfitt að skilja menninguna án þess að kunna tungumálið og Íslendingar séu ekki alltaf nógu opnir. Það geti því tekið tíma til að kynnast landinu að mati Margrétar.

„Ég er alltaf búin að finna fyrir því að þangað til ég lærði íslensku nógu vel að ég var svolítið föst milli tveggja heima,“ segir hún. „Það er stundum erfitt að velja. Ég veit að ég er kannski orðinn meiri Íslendingur en Pólverji því flest fullorðinsárin mín eru hér,“ segir hún. Þáttunum hefur verið mjög vel tekið að sögn Margrétar. „Ótrúlega góð viðbrögð og þakklæti. Margir voru eiginlega hissa,“ segir hún.  

Gaman að geta nýtt hæfileika sína  

Margrét hefur verið áberandi í kvöldfréttum bæði í sjónvarpi og útvarpi og segir að það sé ótrúlega spennandi að vera hluti af fréttateyminu. „Að nýta alla hæfileika sem ég held að henta mjög vel í þetta starf,“ segir hún. „Þessi vinna er ótrúlega skemmtileg og það var ótrúlega vel tekið á móti mér,“ segir Margrét. „Ég fæ mikið hjálp og hvatningu og þetta hefur verið mjög jákvætt og gott.“ Þættirnir Wyspa eru vikulegir og aðgengilegir í spilara RÚV og á öllum helstu streymisveitum.  

Rætt var við Margréti Adamsdóttur í Morgunútvarpinu á Rás 2. Hægt er að hlýða á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan. Þáttinn Wyspa er hægt að hlusta á hér. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þarft að kunna íslensku til að komast dýpra