Fjöldi sagður forða sér undan herkvaðningu

epa10166275 A handout photo made available by TASS Host Photo Agency shows Russian President Vladimir Putin deliveries his speech during a plenary session of the 2022 Eastern Economic Forum (EEF) in Vladivostok, Russia, 07 September 2022.  EPA-EFE/Stanislav Krasilnikov/TASS Host Photo Agency HANDOUT  HANDOUT EDITORIAL USE ONLY/NO SALES
 Mynd: EPA-EFE - Tass
Langar raðir hafa myndast í umferðarteppu á fjölmörgum stöðum á hinum gríðarlega löngu landamærum Rússlands. Mikill fjöldi er sagður vilja komast frá landi til að forðast herkvaðningu.

Vladímír Pútín Rússlandsforseti sagði frá því í ávarpi í gær að ákveðið hafi verið að kalla út varalið rússneska hersins. Að sögn Sergeis Shoigu varnarmálaráðherra nær ákvörðunin til um 300.000 manns en þetta er fyrsta herkvaðningin í Rússlandi frá því í seinni heimsstyrjöld.

Rússneskur almenningur virðist ekki taka vel í þessa ákvörðun. Fregnir bárust af því í gær að svo gott sem allar flugferðir frá Rússlandi hafi selst upp og fjöldi Rússa lýsti óánægju á samfélagsmiðlum.

Skýrust var óánægjan á götum og torgum stórborga. Vel á annað þúsund mótmælenda voru handteknir í um fjörutíu borgum, þar af flestir í höfuðborginni Moskvu og í Sankti Pétursborg.

Breska ríkisútvarpið greinir frá því í kvöld að langar bílaraðir séu á hinum ýmsu vegum sem liggja yfir landamæri Rússlands. Til dæmis við Georgíu, þar sem röðin er margra kílómetra löng. Rússar þurfa ekki vegabréfsáritun til að fara til Georgíu.

Í frétt miðilsins má lesa viðtöl við nokkra rússneska karlmenn sem óttast herkvaðningu og segjast íhuga að flýja land eða jafnvel handleggsbrjóta sig til að komast hjá því að verða sendir til Úkraínu í stríð.

Rússlandsstjórn segir að herkvaðningin nái einungis til þeirra sem hafa lokið herþjónustu áður en óháða dagblaðið Novaya Gazeta segist hafa heimildir fyrir því að aukaákvæði tilskipunarinnar sé haldið leyndu. Það heimili Pútín að kveða allt að milljón manna í herinn.

Þórgnýr Einar Albertsson