Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Haustlitirnir: Náttúran býr sig undir vetrarkomu

21.09.2022 - 13:09
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Haustið er uppskera sumarsins og undirbúningur fyrir veturinn. Náttúran breytir um lit til að leggjast í dvala, plönturnar færa næringuna niður í ræturnar og fella fagurgul laufin til að geta tekist á við vorið eftir kuldann og myrkrið í vetur. Skógfræðingar segja að á Íslandi sé æskilegt fyrir plönturnar að haustlitirnir verði komnir í kringum 1. október. Það þýðir að þær séu heilbrigðar, að þeim líði vel. Svo er líka alveg voðalega fallegt. Haustlitir verða helst í dag.

Þetta helst um haustlitina má hlusta á í spilaranum hér að ofan.

Haustlitir plantna eru birtingarmynd þess þegar þær undirbúa sig fyrir veturinn - að leggjast í dvala. Ef við tökum tré sem dæmi, tré sem lifa nú yfirleitt í mörg ár og jafnvel áratugi, þá þurfa þau að lifa veturna af. Til þess að undirbúa sig fyrir myrkrið og kuldann, þá dæla þau næringarefnum í geymslu í stofnum og greinum, þar sem þau geta ekki fengið neina næringu úr ljósinu. Svo plantan þarf að ná í orku, loka sárunum þegar laufblöðin falla. Svo það geti andað og lifað áfram og lokað sig frá frostinu og myrkrinu. 

En af hverju skipta plönturnar svona um lit? Og af hverju verða þær svona fagurlitaðar í heitu afbrigðum litapallettunnar? Vísindavefurinn veit. 

Plöntur búa yfir innri klukku eins og við - sem stjórnar líffræðilegri starfsemi í samræmi við sólarhring og árstíma. Hjá plöntum stillir sólarljósið klukkuna. Vísindavefurinn segir kerfið afskaplega flókið, þar sem margir ljósviðtakar og mismunandi boðferlar eru tengdir, þannig að ef eitthvað fer úrskeiðis getur annað tekið við. Plöntur skynja bæði magn ljóssins og gæði þess. Þær geta skynjað daglengd eða skiptingu milli dags og nætur, og þannig skynja þær mismunandi árstíma. Klár kvikindi, þessar plöntur. Það ber að taka fram að þetta síðasta stendur ekki á Vísindavefnum. 

Þegar dag tekur að stytta, sendir innri klukkan merki um að breyta frumustarfsemi smám saman og undirbúa plöntuna fyrir veturinn. Ljósmagn minnkar við styttingu dags og ljósgæði breytast þegar sólin er lágt á lofti. Ákveðnir ljósviðtakar taka til starfa og ný frumustarfsemi fer í gang. Litarefnin antósíanín myndast á sama tíma og blaðgræna brotnar niður. Þessi litarefni vernda laufblöð gegn sterku ljósi og geislun. Þar sem blaðgræna er ekki lengur til staðar, er það ljósmagn sem vanalega kemur af stað ljóstillífun orðið að álagi eða streitu fyrir plöntuna. Laufblöðin eiga margt eftir að gera áður en þau deyja og falla, og sterkt ljós getur skemmt frumur. Myndun litarefna karóteníða eykst, en þetta er forveri plöntuhormóns sem undirbýr plöntuna fyrir vetrardvala.