Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Fer með aðgerðir lögreglu fyrir Mannréttindadómstólinn

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, hefur falið lögmanni sínum að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu fjalli efnislega um hvort aðgerðir lögreglunnar á Norðurlandi eystra gagnvart honum og þremur öðrum blaðamönnum standist lög. Þetta kemur fram í grein sem birtist á vef Stundarinnar í dag.

Þau Aðalsteinn, Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks, Þórður Snær Júlíusson ritstjóri Kjarnans og Arnar Þór Ingólfsson blaðamaður á Kjarnanum voru fyrr á árinu boðuð í skýrslutöku og hafa stöðu sakbornings vegna gruns um að þau hafi brotið lög um friðhelgi einkalífs. Málið tengist umfjöllun um gögn úr síma Páls Steingrímssonar skipstjóra um „skæruliðadeild“ Samherja.

Í grein sinni rekur Aðalsteinn að hann hafi fyrst verið boðaður í yfirheyrslu þann 14. febrúar. Honum hafi verið tjáð að tilefni yfirheyrslunnar væru fréttir sem hann skrifaði um skæruliðadeild Samherja. Vísað hafi verið til 228. og 229. greina almennra hegningarlaga um friðhelgi einkalífsins. „[Í lagagreinunum] er þó að finna undanþáguákvæði vegna starfa blaðamanna,“ segir í greininni.

Skrifar Aðalsteinn að engin tilviljun sé að störf blaðamanna séu undanskilin þessum löngum enda sé eitt þeirra mikilvægasta hlutverk að upplýsa almenning um mál sem haldið er frá fólki. „ Það er það sem ég gerði ásamt kollegum mínum í umfjöllun um Panamaskjölin, Glitnisskjölin og Samherjaskjölin, til að nefna dæmi. Eins í umfjölluninni um skæruliðadeild Samherja.“

Aðalsteinn reyndi áður að fá úr um það skorið hvort aðgerðir lögreglu standist lög. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að aðgerðirnar væru ekki lögmætar en Landsréttur vildi ekki taka efnislega afstöðu til rannsóknaraðgerða lögreglunnar, ógilti fyrri dóm og vísaði málinu frá, segir í greininni. „Efnislega umfjöllun og mat á lögmæti lögreglurannsóknarinnar var því ekki hægt að fá hjá dómstólum. Því fóru yfirheyrslurnar fram.“

Því hafi Aðalsteinn ákveðið að fela lögmanni sínum að óska eftir því að Mannréttindadómstóll Evrópu taki málið fyrir. Það mál hefur þegar verið höfðað.

Aðalsteinn segir enn fremur í grein sinni að þær forsendur sem saksóknari lögregluembættisins taldi fyrir rannsókninni í greinargerð fyrir héraðsdómi séu rangar og settar fram gegn betri vitund.

Fyrr í dag birti Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, ítarlega grein á vef miðilsins þar sem hann gagnrýnir aðgerðir lögreglu sömuleiðis, segir engin gögn benda til þess að eitrað hafi verið fyrir Páli Steingrímssyni og að ekkert sakborninga sé grunað um að hafa eitrað fyrir honum „líkt og haldið hefur verið fram í opinberri umræðu og sumum fjölmiðlum“. Skimun hafi ekki leitt nein eiturefni í ljós.

„Sá tími og orka sem farið hefur í þennan farsa skapar auk þess gríð­ar­legt álag sem dregur úr getu til að sinna dag­legum störfum af fullum krafti,“ segir í grein Þórðar.