Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Eldsvoði á Fiskislóð

Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Eldur kom upp í fyrirtækinu Lava Show við Fiskislóð í Reykjavík í nótt. Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins barst tilkynning um eldinn seint á fjórða tímanum og var lið sent á vettvang frá öllum stöðvum, 18 manns á fjórum bílum. Uppfært: Búið er að slökkva eldinn og unnið að því að rífa þak til að tryggja að hvorki eldur né glóð leynist í klæðningu.

Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu hafði tekist að slökkva sjálfan eldinn nokkru fyrir klukkan fimm. Hann var að mestu bundinn við stromp upp af ofninum sem myndar glóandi hraunstrauminn, sem er kjarninn í sýningunni í húsinu.

Í framhaldinu sneru slökkviliðsmenn sér að því að rífa þakklæðningu af húsinu, sem er stórt og mikið stálgrindarhús, til að ganga úr skugga um að hvorki glóð né eldur eyndist í klæðningu eða annars staðar.

Á sýningu Lava Show geta gestir fræðst um eldsumbrot og horft á glóandi hraun renna.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV