Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Carlsen gaf skákina gegn Niemann

Mynd með færslu
 Mynd: AP

Carlsen gaf skákina gegn Niemann

20.09.2022 - 11:43
Málefni Norðmannsins Magnus Carlsen hafa verið í brennidepli undanfarnar vikur eftir að hann lauk þátttöku á Sinquefield Cup og ásakaði bandaríska skákmanninn Hans Niemann um svindl. Hann mætti Niemann aftur í gær á móti sem fram fór á internetinu, en Carlsen lauk viðureigninni snemma.

Skákheimar nötra eftir að norski fimmfaldi heimsmeistarinn Magnus Carlsen ákvað að draga sig úr keppni á Sinquefield Cup mótinu eftir tap gegn Hans Niemann. Þessi bandaríski 19 ára gamli skákmaður er sakaður um svindl og til eru gögn sem staðfesta það að hann hafi svindlað á yngri árum.

Carlsen vildi meina að brögð væru í tafli og lauk sinni þátttöku á mótinu og setti fram færslu á Twitter síðu sína þar sem hann gaf það í skyn að Niemann hafi svindlað.

Í gær mættust þeir tveir aftur á Julius Baer Generation Cup, þar sem keppt er á netinu, en eftir að hafa leikið tvisvar og fært peðin sín fram um tvo reiti í skákinni ákvað Carlsen að gefa hana. Carlsen gaf ekki kost á viðtölum eftir viðureignina og hefur ekki tjáð sig neitt eftir þessa ákvörðun.