Tveir eða þrír hlutir um arkitektúr og Godard

Mynd: Amy Taubin / Criterion Collection

Tveir eða þrír hlutir um arkitektúr og Godard

19.09.2022 - 13:57

Höfundar

„Mörg höfum við heyrt klisjuna um að borgir séu handrit sem hefur verið afmáð og endurskrifað aftur og aftur. París er sérstaklega áhugaverð birtingarmynd þessarar klisju vegna þess að hún er svo vel þekkt,“ skrifar pistlahöfundur Víðsjár.

Óskar Arnórsson skrifar:

„Devenir immortel et puis mourir“—„að verða ódauðlegur og deyja svo.“ Með þessum orðum hefjast þúsundir pistla og minningargreina sem skrifaðir eru í tilefni andláts kvikmyndaleikstjórans Jean-Luc Godard sem lést á þriðjudag. Þar er vitnað til viðtals sem ungur blaðamaður, leikinn af Jane Seberg, tekur við tilgerðarlegan rithöfund, leikinn af leikstjóranum og stríðshetjunni Jean-Pierre Melville, átrúnaðargoði Godards í kvikmyndagerð, í frumraun Godards í fullri lengd frá 1960, À bout de souffle eða Lafmóð

Það er ótrúlegt hversu margar þær voru, týpurnar sem voru með þessi orð vistuð í drafts í Twitter á símunum sínum, bíðandi þess dags sem Godard gæfi upp öndina. Sem hann síðan gerði á þriðjudaginn, að því er virðist eftir sinni eigin hönnuðu atburðarás, en Godard dó líknardauða í Sviss. „Að verða ódauðlegur og deyja svo.“ Ég er sem sagt líka búinn að gerast sekur um að hefja pistil um Jean-Luc Godard og verk hans með þessum orðum. 

Ég ætla ekki að ræða persónu Godards sérstaklega. Ég læt kvikmyndasérfræðinga um það, t.d. Viðar Víkingson í Lestinni daginn sem Godard lést. Í stað þess langar mig að ræða um hann út frá sjónarhóli arkitekts sem hefur séð tvær eða þrjár myndir eftir hann og veit tvo eða þrjá hluti um hann. Tvær af þeim myndum eru Lafmóð og 2 eða 3 hlutir sem ég veit um hana frá 1967, myndir sem ég hafði séð tvisvar eða þrisvar sinnum áður og sem ég horfði á með nokkrum nemendum í arkitektúrdeild Listaháskólans kvöldið eftir að Godard lést. Vil ég eigna þeim allar þær hugmyndir sem hér koma fram en allar rangfærslur eru að sjálfsögðu mínar eigin. 

Margræðnin í titli Godards, 2 eða 3 hlutir sem ég veit um hana, byrjar á titlinum. Hvað þýðir að vita eitthvað um einhvern? Ekki fáum við fleiri vísbendingar í upphafsorðum myndarinnar, þar sem aðalleikkona myndarinnar, Mariane Vlady, stendur á svölum módernískrar blokkar eftirstríðsáranna með úthverfi Parísar í bakgrunni. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jean-Luc Godard - 2 ou 3 choses que je sais d’el
Marina Vlady í 2 ou 3 choses que je sais d’elle.

Þetta er Marina Vlady. Hún er leikkona. Hún er í miðnæturblárri peysu. Hún er af rússneskum uppruna. Hár hennar er dökkbrúnt eða ljósbrúnt, ég veit ekki alveg hvort. Eins og stendur snýr hún höfðinu til hægri, en það er ekki mikilvægt. 

(Hún snýr reyndar höfðinu til vinstri, en við látum það liggja á milli hluta.) Er þetta allt og sumt? Er þetta það eina sem við getum vitað um annað fólk? Hvernig það er klætt hina og þessa stundina, af hvaða uppruna það er, hvaða útlitseinkenni það ber? Hvað þýðir að vita 2 eða 3 hluti? Hvernig er hægt að vera svona nákvæmur (að vita akkúrat 2 eða 3 hluti) en vera síðan ekki einu sinni viss hvort þú vitir 2 eða 3? Hvernig er hægt að vita svona fáa hluti?  

Þó er „hún“ í titlinum ekki einungis Marina Vlady sem leikur vændiskonu af millistétt, Juliette Janson, heldur Parísarborg sjálf, sem leysist upp fyrir framan linsu Godards í þessari róttæku kvikmynd sem framleidd er einungis sjö árum eftir Lafmóð, sem var frá 1960. Parísarborg Lafmóðra var Parísarborg Baudelaires og Haussmanns, sem Walter Benjamin hafði nefnt „höfuðborg 19. aldarinnar.“ Sú París er mikilfengleg og stórbrotin, falleg og umfram allt auðþekkjanleg, með sínum Eiffelturni og Champs-Élysées. Í Lafmóð gerir Godard ráð fyrir að áhorfandinn sé með hugrænt kort af París í kollinum og þannig verða sögusviðin, Champs-Élysées ásamt hinum ýmsu götunöfnum sem ég man ekki skjótu bragði, að vegvísum í sögunni. Í einu atriði fara aðalleikarinn Jean-Paul Belmondo og Seberg inn í skúmaskot á flótta undan lögreglumönnum og koma út, eins og fyrir töfra, á Champs-Élysées. Það sem í vísindaskáldskap er nefnt „teleport“ getur opnast úr dimmu skúmaskoti yfir í Champs-Élysées, alveg eins og kvikmynd getur klippt saman tvo heima, í einni senu flýgur ský yfir tungl, í annarri sker rakvélarblað auga, til að vitna í aðra fræga senu úr kvikmyndasögunni. En þetta teleport er undantekningin sem sannar regluna. París Lafmóðra er hin samhangandi borg sem staðsetur okkur og gefur okkur fullvissu. Þegar eitthvað gerist til að rjúfa þá fullvissu, eins og þegar Belmondo og Seberg teleportast, þá verðum við meðvituð um þetta hlutverk borgarinnar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jean-Luc Godard - 2 ou 3 choses que je sais d’el
Úr 2 ou 3 choses que je sais d’elle

Sú París sem birtist okkur í 2 eða 3 hlutir sem ég veit um hana er aftur á móti sundurslitin borg eftirstríðsáranna. Aftur og aftur fáum við að sjá myndir af vélrænum, módernískum blokkum sjötta áratugarins, þess sem var kallað „les grandes ensembles“ eða „hinar stóru samstæður“, arkitekta eins og Lods og Lopez. Við sjáum gröfur og jarðýtur klóra sig í gegn um hold nítjándu aldar borgarinnar og naga í sundur nítjándu aldar fjölbýlisbyggingar Hausmanns. Það sem kemur í staðinn eru hámódernískar blokkir með sínum sléttu glerflötum umvafðar hraðbrautum sem eftir skríða einkabílar. Ég reyndar elska þessar byggingar, en hvað um það. Umferðarniður og framkvæmdahávaði klingir í eyrum og ærir sinnið. Þetta er ekki París Baudelaires og módernistanna heldur París Baudrillards og póststrúktúralistanna.  

Mörg höfum við heyrt klisjuna um að borgir séu handrit sem hefur verið afmáð og endurskrifað aftur og aftur. París er sérstaklega áhugaverð birtingarmynd þessarar klisju vegna þess að hún er svo vel þekkt. Það hefur verið ort svo mikið um hana, skrifað svo mikið um hana og þar hafa helstu arkitektónísku rökræðurnar átt sér stað í steini og stáli. Locus classicus þessarar klisju er bók Victors Hugo um Hringjararann í Notre Dame frá 1831. Hringjarinn var samtímaádeila á París byltinganna og Hausmanns, í raun sömu borg og Baudelaire mærði nokkrum áratugum síðar. Fyrir Hugo var samtíminn að eyðileggja hið samfellda landslag Parísarborgar, með þrýstingi markaðarins, akademíanna og byltinganna.  

Notre Dame, dómkirkjan sjálf, er tákngervingur Parísar þegar Hugo skrifar að framhlið dómkirkjunnar sé eins og bók. Fyrir Hugo var dómkirkjan, og um leið hin gotneska borg og heimsskipanin sem hún birti, bók Parísarbúa hinna gotnesku miðalda þegar almenningur kunni ekki að lesa. Það er það sem hann meinar með hinni frægu setningu um prentmiðilinn, „ceci tuera cela“—þetta hérna drepur þetta þarna. Prentið leysti kirkjuna af hólmi sem kennisetning fólksins. Upplýsingin fól í sér byltingar og eyðileggingu. Þetta hérna drepur þetta þarna. 

Mynd með færslu
 Mynd: Jean-Luc Godard - 2 ou 3 choses que je sais d’el
Neysluvörur í grasinu í 2 ou 3 choses que je sais d’elle.

Jean Luc Godard spinnur þennan vef áfram í 2 eða 3 hlutir. Snemma í myndinni spyr tíu ára maóisti móður sína Vlady hvað tungumálið sé eiginlega. Hún svarar að tungumálið sé heimili mannsins. Það sem 2 eða 3 hlutir sýnir er upplausn tungumálsins og jafnframt upplausn þessa heimilis. Móðirin selur sig á daginn í sömu stofnun og sonur hennar er á leikskóla. Þess á milli vaskar hún upp og kaupir sér tískufatnað. Fúnksjónalísk uppdeiling daglegs lífs sem kveðið var á um í módernísku borgarskipulagi hefur snúist upp í fáránleika og úrkynjun. Í myndinni leggur Godard, á sinn karlrembulega hátt, Vlady að jöfnu við París og vændi að jöfnu við neysluhyggju, allt skynsamlega niðurnjörvað og skipulagt í hinni fúnksjónalískt aðgreindu borg. Lokasena myndarinnar, af ýmsum neysluvörum í litríkum pakkningum í grasinu, minnir okkur á „tower in a park“ skipulag borgarfræðanna, sundurslitnar blokkir, táknmyndir firringar daglegs lífs en nú í huggandi formi góðvina okkar, neysluvaranna. 

Óskar Arnórsson flutti pistill sinn í Víðsjá á Rás 1. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hvatti fólk til að stela kvikmyndum sínum

Pistlar

Snúðar, kleinur, ástarpungar: Líf við 92°C 

Kvikmyndir

Jean-Luc Godard er látinn

Pistlar

Gleraugu arkitekts með gleraugum arkitektsins