Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

345 milljónir búa við alvarlegt matvælaóöryggi

Mynd með færslu
Jemen er á meðal þeirra 50 ríkja þar sem matvælaöryggi er ekki einungis með minnsta móti heldur vofir þar hungursneyð yfir hundruðum þúsunda Mynd: EBU
Hætta er á „flóðbylgju hungurs“ í haust og vetur að sögn forstjóra Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, sem segir mikla og raunverulega hættu á mörgum hungursneyðum í heiminum áður en þetta ár er úti.

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir alvarlegra og útbreiddara neyðarástandi en fordæmi eru fyrir, sagði David Beasley, forstjóri Matvælaáætlunarinnar þegar hann fór yfir stöðu mála á fundi Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna á fimmtudag.

Tvöfalt fleiri en fyrir heimsfaraldur

345 milljónir manna í 82 löndum horfa fram á mikið og alvarlegt matvælaóöryggi að sögn Beasleys, meira en tvöfalt fleiri en voru í þeim hörmulegu aðstæðum áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar reið yfir.

Hann segir það sérlega mikið áhyggjuefni að um 50 milljónir manna í 45 löndum glími nú þegar við alvarlega vannæringu og séu „á barmi hungursneyðar.“

Bylgja orðin að flóðbylgju og Úkraínustríðið vegur þungt

„Það sem áður var bylgja hungurs er orðið að flóðbylgju hungurs,“ segir Beasley, og þar kemur margt til: Aukin stríðsátök, áhrif og eftirköst heimsfaraldursins, loftslagsbreytingar, hækkandi eldsneytisverð og Úkraínustríðið. Og það vegur þungt.

Frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu hinn 24. febrúar, segir Beasley, hefur ört hækkandi verð á matvælum, eldsneyti og áburði hrakið 70 milljónir í hóp þeirra allt of mörgu sem hungurvofan sækir að.

Þrátt fyrir samkomulag um útflutning á úkraínsku korni frá þremur Svartahafshöfnum og stöðuga viðleitni til að greiða fyrir útflutningi á rússneskum áburði „er raunveruleg og ógnvænleg hætta á mörgum hungursneyðum í ár,“ segir Beasley.

„Og árið 2023, þá gæti yfirstandandi matvælaverðskrísa þróast út í matvælaframboðskrísu, ef við gerum ekkert í málinu.“