Strípað, næmt og stillt

Mynd með færslu
 Mynd: Anna Maggý - GDRN og Magnús Jóhann

Strípað, næmt og stillt

16.09.2022 - 10:13

Höfundar

Tíu íslensk sönglög, með GDRN & Magnúsi Jóhanni, er plata vikunnar á Rás 2. Arnar Eggert Thoroddsen rýnir í gripinn.

Arnar Eggert Thoroddsen skrifar:

Það er sannkallað þungavigtarfólk sem stendur að þessum grip hér. Þau GDRN (Guðrún Ýr Eyfjörð Jóhannesdóttir) og Magnús Jóhann eru gamlir vinir, hafa þekkst síðan þau voru í námi í FÍH, og eiga nú hvort um sig ansi stönduga ferla. GDRN ein elskaðasta söngkona þjóðarinnar og Magnús Jóhann mikilvirkur hljómlistarmaður í íslenskri tónlistarsenu, spilar með margvíslegum aðilum og ólíkum, útsetur, tekur upp o.s.frv. Jafnvígur á popp, djass og R-og-B. Tvíeykið hefur spilað saman við ýmis tilefni undanfarin ár og flutt þar mörg þau laga sem plötuna prýða. Á endanum var ákveðið að prófa að rúlla úrvali þeirra inn á plötu. Útsetningar eru eftir GDRN og Magnús, GDRN syngur, vitaskuld, og Magnús leikur á flygil og píanó.
Magnús sagði rýni frá því að leitast hefði verið eftir að finna plötunni heildarmynd þó svo að lögin væru úr ólíkum áttum og frá ólíkum tímum. Hér er t.d. að finna ævaforn, íslensk lög sem virðast alltaf hafa verið til, lög eins og „Rósin“, „Vikivaki“ og „Ég veit þú kemur“. Nýsígild lög eins og „Einhvers staðar, einhvern tímann aftur“ eru hér líka og enn nýsígildari lög; „Leiðin okkar allra“ og „700 þúsund stólar“ sem við þekkjum með Hjálmum (síðara lagið var reyndar kveikjan að plötunni). Plötunni er lokað með „Morgunsól“ sem er eftir þau Magnús, GDRN og Ármann Örn Friðriksson.

Flutningurinn er alveg afskaplega næmur og nálægt hlustanda, líkt og dúettinn standi við hliðina á honum. Fetið er farið svo hægt reyndar að það er nánast eins og sum lögin séu stopp. Píanóleikurinn er hægur (mjög svo „lent“ svo ég tali tónfræðimál!) og GDRN hagar söngnum samkvæmt því. Þetta er strípað, afbyggt, þannig að eftir stendur nokkurs konar grind sem svo hægt er að túlka inn í. Opnunarlagið, „Einhvers staðar, einhvern tímann aftur“, ber með sér skruðning í stólum og alls kyns brak sem eykur verulega á upplifunina. Snjallt og svalt verð ég að segja og gefur karakter. Fleiri lög bera með sér svona umhverfishljóð. Lögin eru miskunnugleg mætti segja, það er t.d. alveg skýrt hvaða lag er opnunarlagið en örðugra er að þekkja Hjálmalögin. Þau koma virkilega vel út svona verð ég að segja. Með því að hreinsa allt í burtu ofan af þeim og innan úr þeim stendur kjarninn eftir ber og þá má svo glöggt heyra hversu vel heppnaðar lagasmíðar þetta eru í raun og sann.

Merkileg tilraun verður að segjast og hún gengur vel upp. Plata sem stappar nærri „ambient“-plötu (Silva Þórðardóttir og Steingrímur Teague gáfu út áþekka plötu á dögunum) þar sem styrkurinn liggur fyrst og síðast í þessari hugrökku berskjöldun.

Tengdar fréttir

Tónlist

Hefjum andann á loft

Tónlistargagnrýni

Þekkilegt djassskotið popp

Tónlist

Suðurnesjasveiflan

Tónlist

Endurfæðing og endurreisn