Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Handtekin fyrir að myrða börnin sín

15.09.2022 - 09:38
A woman sits on a car as she leaves Ulsan Jungbu police station in Ulsan, South Korea, Thursday, Sept. 15, 2022, for the Seoul Central District Prosecutors' Office. The woman was arrested in South Korea on Thursday on two murder charges from New Zealand, where the bodies of two long-dead children were found last month in abandoned suitcases, authorities said. (Bae Byung-soo/Newsis via AP)
 Mynd: AP
Kona var handtekin í Suður-Kóreu í nótt, grunuð um að hafa myrt börnin sín tvö. Lík barnanna fundust í ferðatöskum í Nýja Sjálandi í síðasta mánuði. Nýsjálensk yfirvöld óska eftir því að konan verði framseld frá Suður-Kóreu.

Konan sem var handtekin er 42 ára gömul, nýsjálensk af suður-kóreskum ættum. AFP fréttastofan segir að hún hafi ítrekað haldið fram sakleysi sínu þegar hún var leidd inn í lögreglubíl. Lögreglan í Suður-Kóreu segir að hún hafi flúið til landsins og dvalið þar frá árinu 2018, eftir að börnin, sem þá voru sjö og tíu ára, dóu.

Fólk alls ókunnugt konunni og börnunum uppgötvaði líkin í ferðatöskunum. Töskurnar voru meðal fjölda annarra hluta sem fólkið fékk þegar það keypti geymslupláss með öllu innihaldi þess á uppboði á netinu. Eftir að kennsl voru borin á líkin var gefin út handtökuskipun á móður þeirra. Suður-kóreska lögreglan fékk ábendingar um hvar hana væri að finna og handsamaði hana í íbúð í borginni Ulsan í kringum miðnætti í nótt að staðartíma.

Lögreglan vill að henni verði neitað um lausn úr gæsluvarðhaldi gegn tryggingu þar til hún verður framseld. Hún á yfir höfði sér ákærur fyrir morð í Nýja Sjálandi.

BBC segir að konan hafi búið í Auckland í nokkur ár ásamt eiginmanni sínum og börnunum tveimur. Maðurinn lést af völdum krabbameins áður en börnin dóu. Amma og afi barnanna heitinna búa enn í Nýja Sjálandi.