Svíþjóð: Segir löggæslu og orku aðalmál hægri stjórnar

14.09.2022 - 19:29
Gunnhildur Lily Magnúsdóttir, dósent í stjórnmálafræði við Háskólann í Malmö.
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Lögreglumál og orkumál verða helstu mál nýrrar hægri stjórnar í Svíþjóð. Þetta segir Gunnhildur Lily Magnúsdóttir dósent í stjórnmálafræði við háskólann í Malmö. Ólíklegt er að Svíþjóðardemókratar taki sæti í nýrri ríkisstjórn.

Gunnhildur segir að líklegasta stjórnarmynstrið núna verði minnihlutastjórn Moderaterna, eða hófsamra hægri manna, og Kristilegra demókrata. Hugsanlega verði Frjálslyndir líka með í þeirri ríkisstjórn. „Svíþjóðardemókratarnir eru ekki líklegir til að setjast í ríkisstjórn þar sem Frjálslyndir, sem er minnsti borgaralegi flokkurinn, hefur gefið það út að þeir eru ekki tilbúnir að styðja slíka stjórn.“

Gunnhildur segir að málefnin sem hafi verið fyrirferðamest í kosningabaráttunni hafi verið mál sem hver flokkur hafi eignað sér - til dæmis hafi Svíþjóðardemókratar, sem er nú stærsti flokkur hægri blokkarinnar, fengið fylgi með því að setja lög og reglu á oddinn.

„Það sem skilur að er fyrst og fremst innflytjendamálin. Og þar er langt á milli hugmyndafræði Frjálslynda flokksins og Svíþjóðardemókrata. Þetta verður flókin ríkisstjórn,“ segir Gunnhildur.

Hún býst ekki við stórum breytingum í Svíþjóð með valdatöku hægri stjórnar. Aukinn kraftur verði þó settur í lögreglumál og orkumál. „Hægri flokkarnir vilja opna aftur kjarnorkuver og byggja kjarnorkuver hérna í Svíþjóð sem var ekki á dagskrá fráfarandi ríkisstjórnar.“

Gunnhildur sagði jafnframt að litlar breytingar verði á utanríkisstefnu Svíþjóðar með stjórnarskiptunum, og því ættu þau ekki að hafa mikil áhrif hér á landi.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV