Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Endalok kórónuveirufaraldursins í sjónmáli

epa08525407 World Health Organization (WHO) Director-General Tedros Adhanom Ghebreyesus attends a press conference organized by the Geneva Association of United Nations Correspondents (ACANU) amid the COVID-19 pandemic, caused by the novel coronavirus, at the WHO headquarters in Geneva, Switzerland, 03 July 2020.  EPA-EFE/FABRICE COFFRINI
 Mynd: EPA-EFE - KEYSTONE
„Við höfum aldrei verið nær því að binda enda á farsóttina,“ segir Tedros Ghebreyesus, framkvæmdarstjóri Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO). Kórónuveirutilfellum hefur farið fækkandi undanfarið, og hafa þau ekki verið færri síðan í mars 2020.

Samkvæmt nýrri sóttvarnarskýrslu WHO fækkaði tilfellum um 28 prósent í síðustu viku. Þá greindust aðeins 3,1 milljón tilfella á heimsvísu. Í vikunni þar á undan fækkaði þeim um 12 prósent.

Ghebreyesus segir að heimsbyggðin sé í dauðafæri til að ráða niðurlögum farsóttarinnar. „Við erum ekki alveg þar,“ segir framkvæmdarstjórinn. „En endirinn er í sjónmáli.“

Stofnunin vekur engu að síður athygli á því að fækkun tilfella gæti verið tilkomin vegna fækkunar á covid-prófum á heimsvísu. Þó sé það ólíklegt að önnur stór bylgja ríði yfir.

peturm's picture
Pétur Magnússon
Fréttastofa RÚV