Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Þungunarrof fátíðara í Færeyjum en hinum Norðurlöndunum

13.09.2022 - 03:28
Mynd með færslu
 Mynd: KVF
Tíðni þungunarrofs er lítil í Færeyjum og það er mun fátíðara þar en á hinum Norðurlöndunum. Fjöldinn er svipaður og fyrir áratug en mun færri fara í þungunarrof en á seinustu tveimur áratugum tuttugustu aldarinnar.

Á seinasta ári voru framkvæmdar 32 þungunarrofsaðgerðir í Færeyjum samkvæmt tölum hagstofu landsins en meðaltal undanfarinna átta ára er 25 ár hvert.

Í frétt Kringvarpsins um málið segir að í ljósi þess hve fáar þungunarrofsaðgerðirnar eru, geti hlutfallslegar sveiflur milli ára orðið talsvert miklar.

Þó megi almennt sjá stöðuga fækkun aðgerða undanfarin ár. Það nær einnig yfir hlutfall þungunarrofs gagnvart lifandi fæddum börnum. Í Færeyjum er hlutfallið 47 á móti hverjum 1.000 fæðingum.

Sem dæmi má nefna að hlutfallið er 191 á móti þúsund í Finnlandi, 248 á Íslandi og 1.062 á Grænlandi. Allt frá árinu 2015 hafa að meðaltali verið gerðar um 25 þungunarrofsaðgerðir árlega í Færeyjum. 

Á seinni hluta tíunda áratugar seinustu aldar var þungun rofin að meðaltali fimmtíu sinnum á ári, við aldamótin voru aðgerðirnar komnar niður í 40 til 45 og á öðrum áratug nýrrar aldar voru þær um þrjátíu ár hvert.