„Þau komu bara ekki vel fram við Díönu“

Mynd: EPA  / EPA

„Þau komu bara ekki vel fram við Díönu“

13.09.2022 - 11:36

Höfundar

Lítil viðbrögð konungsfjölskyldunnar, ekki síst Elísabetar drottningar, við sviplegu fráfalli Díönu prinsessu fengu mikla gagnrýni meðal almennings og í dagblöðum í Bretlandi á sínum tíma. „Það hafði bara aldrei, hvorki fyrr né síðar, komið jafn hörð gagnrýni á drottninguna,“ segir Hildur Helga Sigurðardóttir, fyrrverandi fréttaritari RÚV í London.

Sviplegur dauði Díönu prinsessu skók heimsbyggðina 31. ágúst 1997. Díana var þá skilin við Karl, þáverandi krónprins og núverandi konung Bretlands, en naut enn hylli bresku þjóðarinnar. Hún var dáð fyrir mannúðarstörf og óhefðbundna nálgun og þótti frábrugðin öðrum í konungsfjölskyldunni. Hún þótti búa yfir miklum persónutöfrum og var gjarnan einlægari í viðtölum en almenningur átti að venjast af konungsfjölskyldunni. „Hún var þessi troublesome woman, þessi erfiða. Hún var þeim óþægur ljár í þúfu,“ sagði Hildur Helga Sigurðardóttir, fyrrverandi fréttaritari RÚV í London, um samband Díönu og konungsfjölskyldunnar í þættinum Drottningin á Rás 2.  

Ofveiddasta manneskja á jörðu 

Díana lést ásamt Dodi Al Fayed, kærasta sínum, í skelfilegu bílslysi sem varð þegar ágengir ljósmyndarar eltu bíl þeirra. Hildur Helga sá fyrir, eins og margir aðrir, að Díana fengi ekki frið fyrir ágangi blaðamanna á lífsleiðinni. „Hún yrði bara hundelt alla ævina eins og Spencer lávarður bróðir hennar sagði í útfararræðunni.“ Spencer sagði konungsfjölskyldunni til syndanna í eldræðu sem hann flutti við útför systur sinnar. Hann sagði meðal annars að það væri kaldhæðni örlaganna að þessi stúlka, sem bar nafn veiðgyðjunnar Díönnu hefði endað ævina sem ofveiddasta manneskja á jörðu, rifjar Hildur Helga upp. 

Bróðir Díönu tjáði reiði sína í ræðunni, reiði í garð konungsfjölskyldunnar og reiði yfir því hvernig dauða hennar bar að. „Síðan flutti hann, þessi maður sem maður hafði kannski ekki haldið að reiddi vitið neitt í þverpokum, en hann flutti þessa þrumuræðu og hann eiginlega bara skammaði konungsfjölskylduna og minnti svona nett á í leiðinni að Díana hefði nú eiginlega verið miklu konungbornari en þau. Hafið þið það þarna Hannoverarnir ykkar.“  

Ræðu Spencers var tekið með dynjandi lófataki og Hildur Helga man að hún skildi tilfinningar hans vel. Reiðin hafi verið réttmæt, reiðin yfir dauðdaganum og reiðin yfir framkomunni. „Þau komu bara ekki vel fram við Díönu.“ 

Sýnið okkur að yður sé ekki sama  

Viðbrögð konungsfjölskyldunnar við andláti Díönu voru harðlega gagnrýnd af almenningi og dagblöðum í Bretlandi, ekki síst viðbrögð drottningarinnar. Elísabet þótti draga lappirnar í viðbrögðum við andlátinu og vannýta tækifæri til að tengjast þjóðinni sem syrgði Díönu. „Það hafði bara aldrei, hvorki fyrr né síðar, komið jafn hörð gagnrýni á drottninguna,“ segir Hildur Helga.  

Britain's Princess Diana (C) meets children during her visit to the Hindu temple Neasden in London, Britain, 06 June 1997. The 20th anniversary of Princess Diana's death will be marked on 31 August 2017. Diana Spencer, ex-wife of Prince Charles,
 Mynd: EPA
Díana hittir börn í júní 1997 í London.

„Þarna gerðu þau sér ekki fyrir fram grein fyrir þessum ofboðslega tilfinningahita sem braust fram,“ segir Hildur Helga um konungsfjölskylduna. Þótt almenningur hefði ekki þekkt Díönu persónulega fannst fólki það þekkja hana. „Fólk greinilega bara elskaði hana.“ Díana var táknmynd margra mannlegra eiginleika og hafði látið til sín taka í mannúðarbaráttu. „Hún faðmaði eyðnisjúklinga og svo barðist hún á móti jarðsprengjum og var mjög öflug í þeirri baráttu. Þannig að hún gerði marga góða hluti, hún var ekki bara tískufyrirmynd.“ 

Hvorki drottningin né aðrir í fjölskyldunni þóttu sýna nein viðbrögð eftir að  fregnir bárust af andláti Díönu. „Blöðin voru alveg, ég man eftir forsíðunum: Sýnið okkur að yður sé ekki sama, yðar hátign.“ Viðbrögðin komu að lokum. Þegar drottningin kom til Lundúna frá Balmoral-kastala, var fáni dreginn í hálfa stöng við Buckingham-höll. Það hafði aldrei verið gert áður nema þjóðhöfðingi hefði látist. „Þau sýndu lit og fóru eftir því sem almenningsálitið og blöðin, það var bara öskrað á þau að þau yrðu að sýna eitthvað.“ 

Drottningin flutti ávarp og minntist fyrrverandi tengdadóttur sinnar, „sem var mjög fallegt, sem hún sagðist gera líka sem amma. Hún gerði það auðvitað mjög vel. Svo fór hún í litla gönguferð fyrir utan höllina og safnaði blómum, alveg óvarin, og talaði við fólkið.“ Drottningin tók því við sér og sýndi að fráfall Díönu hefði fengið á hana rétt eins og þjóðina alla.  

Tíndu út seremóníur sem átti að fylgja við útför drottningamóðurinnar 

„Það voru engin fordæmi fyrir því hvernig átti að halda þessa jarðarför,“ segir Hildur Helga. Útför Díönu var sýnd í beinni útsendingu um allan heim og milljónir fylgdust með þegar hún var borin til grafar. „Það hafði aldrei verið haldin önnur eins jarðarför og hirðin vissi ekki hvernig hún átti að snúa sér.“ Við útför konungborinna þjóðhöfðingja er allt skipulagt í þaula. „Þeir eru búnir að vera að æfa jarðarförina hennar í 20-30 ár. Það er allt á blaði, skref fyrir skref.“ 

Það voru engin fordæmi fyrir því að konungsfjölskyldan héldi íburðarmikla og stóra útför fyrir fyrrverandi maka einhvers úr fjölskyldunni. „Það var ekki hægt annað en að sýna henni fullan sóma.“ Fráfall Díönu var að auki sviplegt og því var enginn undirbúningur. Stuðst var við áætlanir fyrir útför drottningarmóðurinnar sem þá var enn á lífi. „Þeir voru svona að tína úr þeim seremóníum, hvort það væri ekki eitthvað nothæft þar í sambandi við Díönu, en þeir þurftu svolítið að spinna þetta af fingrum fram.“ 

Lengsta beina útsending í sögu RÚV 

Útför Díönu er mörgum eftirminnileg. Bein útsending frá henni stóð yfir í margar klukkustundir. „Þetta var þá langlengsta beina útsending sem Ríkisútvarpið hafði staðið fyrir.“ Hildur Helga og Ólafur Sigurðsson fréttamaður lýstu beinu útsendingunni og fengu ýmis gögn í hendurnar með upplýsingum, svo sem um sálma sem sungnir yrðu og ræðumenn sem tækju til máls. „Svo auðvitað töluðum við og lýstum því sem bar fyrir augu.“ 

Fólk flykktist til Lundúna til að eiga kost á að sjá kistu Díönu sem fór frá heimili hennar í Kensington-höll að Westminster Abbey þar sem útförin fór fram. „Þarna er, eiginlega um miðja nótt, milljónir byrjaðar að streyma til Lundúna og sumir auðvitað komnir löngu á undan, voru búnir að tjalda á einhverjum gangstéttum sólahringum á undan meðfram þessari svakalega löngu leið sem kistan fór.“ 

epa10170496 (FILE) - A picture dated 04 September 1997 shows Britain's Queen Elizabeth II (C) joining her grandson Prince Harry (L) and son and heir Prince Charles as they view the floral tributes for the late Diana, Princess of Wales at the Queen's Balmoral estate following evening church service, in Balmoral, Scotland, Britain (reissued 08 September 2022). According to a statement issued by Buckingham Palace on 08 September 2022, Britain's Queen Elizabeth II has died at her Scottish estate, Balmoral Castle, on 08 September 2022. The 96-year-old Queen was the longest-reigning monarch in British history.  EPA-EFE/IAN STEWART
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Harry heiðrar minningu móður sinnar ásamt föður sínum og ömmu.

Synir Díönu gengu eftir kirkjugólfinu. Það hafa margir gagnrýnt. Eftir á að hyggja hafi skort á næmni fyrir tilfinningum þeirra á þeirri stundu. „Þeir voru náttúrulega ungir og litlir, að þurfa að þramma á eftir líkkistu móður sinnar þessa löngu leið fyrir augum heimsins.“  

Fjallað var um Díönu prinsessu í þættinum Drottningin á Rás 2. Hlýða má á þáttinn í heild sinni hér í spilara RÚV.

Tengdar fréttir

Innlent

Þegar Elísabet drottning kom til Íslands

Evrópa

Westminster Abbey leikur ríkt hlutverk í ævi Elísabetar

Erlent

Þjóðhöfðingi í sjötíu ár

Fjölmiðlar

Vilhjálmur og Harry fordæma framgöngu BBC