Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Við verðum bara tilbúnir rétt við eyjuna“

11.09.2022 - 12:24
Mynd með færslu
Þór, varðskip Landhelgisgæslunnar. Mynd: Landhelgisgæslan
Varðskipið Þór kom að Grímsey á tólfta tímanum, þar sem áhöfnin verður til taks ef þess gerist þörf vegna jarðskjálftahrinunnar úti fyrir Norðurlandi. Eiríkur Bragason skipherra segir að varðskipið liggi við akkeri hálfa mílu frá landi, þar sem er svartaþoka og rétt grillir í eyjuna frá skipinu.

„Við verðum hérna bara til taks. Við verðum bara tilbúnir rétt við eyjuna,“ segir Eiríkur Bragason skipherra.

-Tilgangurinn er væntanlega að flytja fólk í land ef eitthvað gerist? „Já, ef eitthvað kemur upp á erum við hérna og reiðubúnir í hvað sem er. Ef það þarf að flytja eitthvað hingað eða hvort sem er, fólk eða hvað sem þarf. Við erum eins og alltaf bara klárir, með léttabáta og allt sem til þarf ef það þarf flutninga hérna úr eyjunni. Við erum með átján manna áhöfn.“

Hann segir að viðbúnaðurinn sé ekki síst fyrir fólkið í Grímsey. „Svona kannski sálarástand líka og léttir á, bara sýna fólki að það sé viðbúnaður. Það er ekkert hlaupið í burtu einn tveir og þrír, þó það sé eitthvað af minni bátum það getur verið allskonar veður hérna á milli lands og eyja.“

Óvissustigi almannavarna var lýst yfir á föstudaginn vegna skjálftahrinunnar og því óskuðu almannavarnir eftir því að varðskipið yrði skammt undan. Eiríkur segir óvíst hvað varðskipið verður lengi við Grímsey. Á morgun er næsti stöðufundur viðbragðsaðila almannavarna og lögreglunnar á Norðurlandi eystra.

holmfridurdf's picture
Hólmfríður Dagný Friðjónsdóttir
Fréttastofa RÚV