Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Mjótt á munum fyrir kosningar í Svíþjóð á morgun

epa10171552 Ulf Kristersson, leader of the Moderate party and Prime minister Magdalena Andersson, leader of the Social Democrats  during a political debate broadcasted on TV4 from Eskilstuna, Sweden, 08 September 2022. General elections will be held in Sweden on 11 September 2022.  EPA-EFE/Christine Olsson  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Gengið verður til kosninga í Svíþjóð á morgun. Afar mjótt verður á mununum ef marka má skoðanakannanir. Kosið er um þrjú stjórnsýslustig í einu; þing, sveitarstjórnir og héraðsstjórnir.

Og því er allt undir, frá heilbrigðis- og menntakerfinu til aðgerða í loftslagsmálum, hvernig stemma eigi stigu við glæpum, afstöðu í utanríkismálum, innflytjendamálum og svo mætti lengi telja. Lítið hefur þó farið fyrir flestum þessum málum í kosningabaráttunni. En mun meira fyrir upphrópunum, ásökunum og skömmum vegna eins af stjórnmálaflokkunum. Flokksins sem allt bendir til að verði næst stærstur í kosningunum á morgun. 

Skoðanakönnunum hefur öllum borið saman um tvennt undanfarnar vikur, í aðdraganda kosninganna í Svíþjóð: Það verður mjög mjótt á munum milli hægri- og vinstriblokkarinnar. Og Svíþjóðardemókratarnir verða sigurvegarar kosninganna.

Undanfarið kjörtímabil hefur verið stormasamt og viðburðaríkt. Jafnaðarmannaflokkurinn er nú í minnihlutastjórn með stuðningi þriggja annarra flokka og aðeins eins atkvæðis meirihluta á þingi. Þingforsetinn var kosinn af hægriflokkunum. Og ríkisstjórnin þarf líka að stýra landinu út frá fjárlagafrumvarpi sem var lagt fram og samþykkt af stjórnarandstöðunni. Sérstök staða. Og þetta er líka önnur ríkisstjórnin á kjörtímabilinu, eftir að vantraust var samþykkt á fyrri stjórn, fyrir rúmu ári síðan vegna eins af þeim fjölmörgu pólitísku málum sem valdið hafa núningin milli stuðningsflokka stjórnarinnar.

Og dramatíkin er ekki bara í Riksdagen - á sænska þinginu. Svíum varð eins og mörgum auðvitað, mjög brugðið við innrás Rússlands í Úkraínu og hurfu í framhaldinu frá tveggja alda langri hlutleysisstefnu, og sóttu um aðild að NATO. Landsmenn búa sig nú auk þess undir efnahagskrísu, margfalt hærra orkuverð, og svo eru það glæpagengin og skotárásir á götum borga og bæja. Að minnsta kosti 45 hafa látið lífið í skotárásum í Svíþjóð á þessu ári. Yfir tvö hundruð og fimmtíu skotárásir hafa verið gerðar. Allt hefur þetta sett mark sitt á kosningabaráttuna.

epa10171550 The leaders of Sweden's eight bigges political parties take part in a debate broadcasted on TV4 from Eskilstuna, Sweden, 08 September 2022. General elections will be held in Sweden on 11 September 2022.  EPA-EFE/Christine Olsson  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY

Það er ekki furða að það sé nokkur hiti í umræðum leiðtoga stjórnmálaflokkanna, nú rétt fyrir kosningarnar, og hver tali upp í annan. Tveir flokkar á sænska þinginu berjast hreinlega fyrir því að halda sér inni - fá nógu mörg atkvæði til að halda sér inni á þingi. Og á fylgi fylkinganna tveggja sem hyggjast mynda ríkisstjórn, gæti varla verið minni munur.

Blokkirnar tvær

Í Svíþjóð hefur það lengi verið þannig að það liggur nokkuð ljóst fyrir kosningar hvers konar ríkisstjórn flokkarnir hyggjast mynda eftir þær. Síðustu áratugi hafa valmöguleikarnir verið tveir - hægri og vinstri. Vinstriblokkin hefur almennt verið ríkisstjórn Jafnaðarmanna, stundum með Græningjum, og studd Vinstriflokknum, sem þó hefur lítið fengið í staðinn fyrir stuðning sinn, alla jafna. Hægriblokkin hefur verið skipuð Moderatarna, Kristilegum demókrötum, Frjálslyndum og Miðflokknum, Centern. Síðustu ár hefur svo áttundi flokkurinn á sænska þinginu, Svíþjóðardemókratarnir, sótt mjög í sig fylgi. Sá flokkur er af sumum skilgreindur sem hægriflokkur, þótt hann segist aðallega vera þjóðernissinnaður og íhaldssamur - félagslega íhaldssamur eða socialkonservativ. Og hefur lagt talsvert upp úr velferðarmálum. Og nú tilheyrir hann því sem áður var kallað hægriblokkin, en er nú oft kölluð íhaldsblokkin. Miðflokkurinn, sem var í hægriblokkinni, hefur hins vegar varið ríkisstjórn Jafnaðarmanna falli - vegna óbeitar flokksmanna á Svíþjóðardemókrötunum, sem flokkurinn hafnar alfarið að vinna með.
 
Munurinn á fylgi við þessar tvær blokkir er nú hverfandi lítill.

Vinstriblokkin - möguleg ríkisstjórn Magdalenu Andersson, formanns Jafnaðarmanna og forsætisráðherra - mældist í vikunni með 49,7% fylgi. Hægriblokkin - möguleg ný stjórn undir forystu Ulfs Kristerssonar, formanns Moderatarna mældist með 49,3% fylgi. Munurinn innan við hálft prósentustig.

Þegar það er svona gríðarlega jafnt milli fylkinganna, þá skiptir öllu hve vel fólk mætir á kjörstað, segja fréttaskýrendur. Bara kannski eins prósents munur á því hve vel flokkunum gengur að fá fólk á kjörstað, getur haft afgerandi áhrif á úrslitin.

Breytilegt viðhorf til Svíþjóðardemókrata

Að flokkur Svíþjóðardemókrata sé fullgildur hluti af fylkingu - verði með í að mynda nýja ríkisstjórn - það er langt í frá sjálfsagt. Flokkurinn á rætur í nýnasistahreyfingunni. Og þar til á þessu kjörtímabili hafa allir aðrir stjórnmálaflokkar á sænska þinginu neitað að vinna með honum og í raun ekki viljað tala við fulltrúa flokksins.

Fyrir síðustu kosningar, 2018, var það alveg skýrt hjá Ulf Kristersson, formanni hægriflokksins Moderatarna, að hann ætlaði ekki að verða forsætisráðherra með stuðningi Svíþjóðardemókratanna.

„Við höfum ákveðin gildi og munum ekki stjórna með eða eiga í stjórnarviðræðum við Svíþjóðardemókratana,“ sagði Kristersson, fyrir fjórum árum. Og bætti við að einn af forsvarsmönnum Svíþjóðardemókratanna hefði ítrekað dregið í efa að Gyðingar og Samar væru alvöru Svíar.

Þessi afstaða til flokksins hefur breyst á kjörtímabilinu. Í upphafi þess vildi Kristersson og Kristilegir demókratar mynda stjórn með passívum stuðningi Svíþjóðardemókratanna - það er að þeir myndu verja hægri stjórnina falli án þess þó að fá nokkru að ráða um stefnu hennar. En nú boða flokkarnir fullt samstarf um stefnu og fjárlög. Nema hvað Svíþjóðardemókratarnir eigi ekki að fá að sitja í ríkisstjórn.

Þetta verður alvöru samstarf, sagði Kristersson nýlega í viðtali við sænska ríkissjónvarpið. Flokkarnir þrír hafa ítrekað komið saman á kosningafundum. Stundum með fjórða flokknum - Frjálslyndum, sem er í raun klofinn í afstöðu sinni. Enda segja Svíþjóðardemókratar að það sé einmitt frjálslyndisstefnan sem flokkurinn berjist helst gegn. Það er því ákveðin spenna í samstarfinu. Og svo er spurning hvort það gangi að halda Svíþjóðardemókrötunum utan ríkisstjórnar.

epa10171584 Jimmie Akesson, leader of the Sweden Democrats during a political debate broadcasted on TV4 from Eskilstuna, Sweden, 08 September 2022. General elections will be held in Sweden on 11 September 2022.  EPA-EFE/Christine Olsson  SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Jimmy Åkesson, formaður Svíþjóðardemókrata.

Formaður flokksins, Jimmy Åkesson sagði í vikunni að kannski myndu hægriflokkarnir neyðast til að leyfa Svíþjóðardemókrötunum að vera með, hvað sem þeir annars segi núna.

Blaðamannafundir á víxl

„Svíþjóðardemókratarnir eru enginn venjulegur flokkur. Enginn annar flokkur er, eins og þeir, með rætur í nýnasisma og kynþáttahyggju,“ sagði Anders Ygeman ráðherra í sænsku ríkisstjórninni, á blaðamannafundi um viku fyrir kosningar. Og bætti við að sífellt kæmu upp ný mál sem sýndu að tengsl flokksins við nýnasisma væru enn til staðar.

Ygeman og samráðherra hans - sænski varnarmálaráðherrann höfðu boðað til blaðamannafundar gagngert til að fjalla um Svíþjóðardemókratana og meinta ógn sem öryggi ríkisins stafaði af flokknum. Meðal annars vegna tengsla flokksmanna við nýnasisma, kynþáttahyggju og vegna tengsla Svíþjóðardemókratanna við Rússland Pútíns.

Ráðherrarnir tveir eru auðvitað Jafnaðarmenn, enda sitja þeir í ríkisstjórn Jafnaðarmanna. Og fannst mörgum óviðeigandi að þeir notuðu stöðu sína til að ráðast á pólitíska andstæðinga. Sérstaklega töldu forsvarsmenn Svíþjóðardemókratanna þetta ósvífið. Að stjórnvöld fordæmi stjórnarandstöðuflokk og saki um að ganga erinda erlendra afla - svona framganga þekkist bara í einræðisríkjum, sagði formaður Svíþjóðardemókratanna, Jimmy Åkesson.

Viku síðar borguðu Svíþjóðardemókratarnir fyrir sig í sömu mynt - efndu til blaðamannafundar um Jafnaðarmannaflokkinn. Og týndu til hneykslismál og misheppnaða stefnu sem Jafnaðarmenn hefðu borið ábyrgð á, undanfarin átta ár sem flokkurinn hefði haldið um stjórnartaumana.

„Svíþjóð stafar ógn af Jafnaðarmönnum,“ sagði formaður Svíþjóðardemókratanna.

Þessir súrrealísku blaðamannafundir sýna kannski öðru fremur hve umdeildir Svíþjóðardemókratarnir eru og hvernig aukið fylgi flokksins og breytt afstaða til hans hefur gjörbreytt hinu pólitíska landslagi í Svíþjóð.

Allt kjörtímabilið, og einnig nú í aðdraganda kosninganna, hafa ítrekað komið upp hneykslismál tengd kynþáttahyggju, nýnasisma og ólýðræðislega framkomu.

Rannsókn Acta Publica leiddi til dæmis í ljós nýlega að hátt í þrjú hundruð frambjóðendur til sænska þingsins hafi látið í ljós stuðning við nasisma eða aðra hægriöfgastefnu. Langflestir frambjóðendur Svíþjóðardemókratanna.

Og í síðustu viku sendi starfsmaður Svíþjóðardemókrata í þinghúsinu, Riksdagen, umdeildan tölvupóst til samstarfsmanna sinna. Þar bauð hann til kaffisamsætis í tilefni þess að 83 ár væru liðin frá því innrás nasista í Pólland.

Þá hafa flokksmenn og frambjóðendur ítrekað orðið uppvísir að því að deila samsæriskenningum, rasískum áróðri, hótunum og viðlíka efni á samfélagsmiðlum. Oft bregst flokkurinn við með því að vísa viðkomandi úr Svíþjóðardemókrötunum. En hneykslismálin hafa ekki hætt fyrir því.

Gott gengi Svíþjóðardemókrata

Engu að síður gengur flokknum vel. Sögulega hafa Moderatarna - rótgróni hægriflokkurinn - alltaf verið stærstur á hægri kanti stjórnmálanna. Og forsætisráðherraefni íhaldsblokkarinnar nú er líka formaður þess flokks. Nú bregður hins vegar svo við að fylgi Moderatarna er aðeins um 17%. En Svíþjóðardemókratarnir hafa bætt við sig jafnt og þétt og mælast nú með um tuttugu og eins prósents fylgi. Og eru annar stærsti flokkur landsins á eftir Jafnaðarmannaflokknum.

Moderatarna hefðu varla getað óskað sér betri kosningabaráttu þegar kemur að því hvaða málefni voru í forgrunni: Glæpir og innflytjendamál. Eins og Mats Knutsson fréttaskýrandi sænska ríkissjónvarpsins, benti nýlega á.

Vinstriflokkarnir vilja helst tala um velferðarmál og kannski gegn einkarekstri í skólakerfinu, eða umhverfismál. En þau mál voru algerlega til hliðar. En þrátt fyrir þetta hafa Moderatarna ekki slegið í gegn. Svíþjóðardemókratarnir tala nefnilega fyrir svipuðum áherslum og Moderatarna, en eru bara harðari og þykja trúverðugri. Og eftir að hægriflokkarnir tilkynntu að þeir myndu sækjast eftir því að mynda ríkisstjórn með stuðningi þeirra, þá eru kannski margir hættir að veigra sér við að kjósa flokkinn, eins og var áður, þegar hann þótti óboðlegur vegna tengsla við nýnasisma.

Það gæti því farið svo að Svíþjóðardemókratarnir verði stærsti flokkurinn í íhaldsblokkinni. Og hvaða kröfur flokkurinn gerir þá til áhrifa og embætta á eftir að koma í ljós. Það er því erfitt að sjá fyrir sér ró og frið á stjórnarheimilinu, fari blokk íhalds- og hægriflokka með sigur af hólmi í kosningunum.

Vandræði vinstriblokkarinnar

En það er ekki víst að það verði rólegra vinstra megin.

Til að Magdalenu Andersson, formanni Jafnaðarmanna og núverandi forsætisráðherra, takist að sitja áfram, þarf hún að ná saman Græningjum, Vinstriflokknum og Miðflokknum. Miðflokkurinn er til hægri í stjórnmálum, og tók til að mynda höndum saman með hægriblokkinni í fyrra til að setja fjárlög, þvert á vilja hinna flokkanna sem standa að ríkisstjórninni. Miðflokkurinn vill líka ekki sjá Vinstriflokkinn koma nálægt neinum ákvörðunum. En um leið krefst Vinstriflokkurinn þess að fá að sitja í ríkisstjórn. Miðflokkurinn vill lækka skatta; Vinstriflokkurinn hækka. Miðflokkurinn vill draga úr takmörkunum á skógarhögg og ýmsar framkvæmdir. En Græningjar þvert á móti setja strangari reglur, til að styrkja umhverfisvernd. Flokkarnir eru líka á öndverðum meiði í menntamálum, heilbrigðismálum og svo mætti áfram telja.

epa10163699 Swedish Prime Minister Magdalena Andersson, party leader of the Social Democrats, gives a speech in the city of Falun, Sweden, 05 September 2022 (issued 06 September 2022). Andersson is campaigning in Borlange and Falun, ahead of the general elections scheduled for 11 September 2022.  EPA-EFE/Pontus Lundahl SWEDEN OUT
 Mynd: EPA-EFE - TT NEWS AGENCY
Magdalena Anderson.

Mats Knutson, stjórnmálaskýrandi sænska ríkissjónvarpsins, segir að jafnvel þótt vinstriblokkin fengi meirihluta, gæti eftirleikurinn orðið flókinn.

Andersson kann að standa frammi fyrir pólitískri martröð eftir kosningarnar, jafnvel þó hún fari með sigur af hólmi, segir Mats Knutsson. Það hafi verið talsverður klofningur milli flokkanna sem standa að og styðja núverandi ríkisstjórn. Og hann hafi aukist enn í kosningabaráttunni. Mikið til vegna þess að flokkur Jafnaðarmanna hafi fært sig meira til hægri í nokkrum málum. Flokkurinn er til dæmis orðinn jákvæðari gagnvart kjarnorku; talar fyrir harðari refsingum, auknum heimildum fyrir lögregluna og strangari innflytjendastefnu.

Við þetta bætist svo - aftur og enn - hve mjótt það er á munum milli blokkanna. Kannski verður munurinn bara eitt eða tvö þingsæti.

Ef til vill ber að skoða framgöngu Magdalenu Andersson í umræðum við áskoranda sinn í þessu ljósi. Í sjónvarpskappræðum forsætisráðherraefnanna í vikunni, sagðist hún ítrekað vera sammála andstæðingi sínu, Ulf Kristersson. Og hvatti hann til að vinna með sér.

„Ég er fullkomlega sammála Ulf Kristersson; Ég er alveg sammála; við erum sammála um svo margt“ - einhvern veginn þannig hljómaði þetta hjá forsætisráðherra Jafnaðarmanna, samanklippt af sænska ríkisútvarpinu. Kannski vill Andersson bara draga tennurnar úr gagnrýnandanum með því að segjast bara sammála honum. En líklega vill hún líka opna fyrir mögulegt samstarf með hægriflokknum, jafnvel mynda ríkisstjórn með honum, ef staðan verði þannig. Formaður Miðflokksins, Annie Lööf, hefur líka sagt að hún vilji gjarna að Miðflokkurinn myndi stjórn yfir miðjuna, með Jafnaðarmönnum og Moderatarna.

Fréttaskýrendur spyrja sig því hvort sænska leiðin til að nálgast stjórnarmyndanir út frá tveimur fyrirfram skýrum valkostum - sé hreinlega að verða úrelt.

Kári Gylfason
Fréttastofa RÚV