Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Auðlindir jarðvegs og gróðurs

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV

Auðlindir jarðvegs og gróðurs

09.09.2022 - 14:32

Höfundar

Bryndís Marteinsdóttir plöntuvistfræðingur kafar ofan í moldina í umhverfispistli í Samfélaginu.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------

Bryndís Marteinsdóttir les:

Venjulegt ástand?

Í hugum margra er gróður- og jarðvegur (þ.e. moldin) svo sjálfsagður hlutur að við áttum okkur ekki á því að þetta eru meðal okkar allra mikilvægustu auðlinda - auðlindir sem allt okkar líf byggir á. Þessar auðlindir eru grunnurinn að lífsnauðsynlegum vistkerfisferlum og þjónustum s.s. kolefnisbindingu, matvælaframleiðslu, vatns- og næringarefna hringrásinni og frumframleiðni. Og líkt og með aðrar auðlindir, eru þær takmarkaðar og við þurfum að hugsa vel um þær.

Ástand þessara auðlinda – gróðurs og jarðvegs - mætti vera betra. Stór hluti íslenskra vistkerfa er í hnignuðu ástandi, mikið er um jarðvegsrof, og töluvert af votlendi hefur verið framræst að óþörfu.

En við tökum ekki endilega eftir þessu, sérstaklega þar sem mikið af þessari hnignun hefur átt sér stað á löngum tíma, og fyrir okkur er hnignaða ástand auðlindanna „venjulegt ástand“ , við álítum bara að svona eigi þetta að vera og svona hafi þetta alltaf verið.

Ég hvet ykkur til að horfa aðeins í kringum ykkur og velta fyrir ykkur hvort það sem þið sjáið sé „venjulegt ástand“? Á fellið sem ég sé út um stofugluggann að vera gróðursnautt? Eða á móinn sem ég sé út um bílrúðuna að vera rofinn?

Hvernig gætu gróðursnauða fellið og rofni móinn litið út af allt væri með felldu? Hver er eiginlega geta þessa lands? Og hvað ég við þegar ég segi „geta landsins“?

Vistgeta

Vistgeta er hugtak sem að lýsir einmitt því hvernig vistkerfi gætu þrifist á hverjum stað, t.d. gæti vistgeta rofna móans verið birkikjarr m.v. loftslag, jarðveg og legu í landi.

Vistgeta er einmitt hugtak sem lagt er áhersla á í glænýrri stefnu stjórnvalda um landgræðslu og skógrækt fyrir Ísland til ársins 2031. Stefnan nefnist Land og líf og hún dregur fram hvernig við ætlum að vernda, endurheimta og bæta gróður- og jarðvegsauðlindir þjóðarinnar, ná þeim upp í vistgetu sína og tryggja sjálfbæra nýtingu þeirra.

Í fyrsta lagi á að leggja áherslu á að efla vernd, viðgang og heilleika vistkerfa. Heil vistkerfi eins og gamlir birkiskógar og óraskað votlendi, eru mjög verðmæt, þau binda mikið kolefni, eru heimkynni fjölda dýra og plantna og jarðvegurinn í þeim er frjór. Það er því mjög mikilvægt að vernda það sem eftir er af þessum vistkerfum. Stórum hluta votlendis á láglendi hefur verið raskað með framræslu og þekja birkiskóga er í dag bara 1,5% af flatarmáli Íslands en var líklega að minnsta kosti yfir 25% við landnám. Og enn þann dag í dag erum við að raska votlendi og birkiskógum, oft án þess að þess sé þörf.

Í stefnunni er gert ráð fyrir að auka vernd skógarleifa og náttúruskóga þ.e. birkiskóga sem fyrir eru og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra með sjálfsáningu, en birkið býr einmitt yfir þeim eiginleika að ef aðstæður eru réttar, getur það dreift úr sér af sjálfsdáðum. Gott dæmi um þetta sjáum við á Skeiðarársandi en þar hefur útbreiðsla birkis sprungið út á seinustu árum. Fyrir um 20 árum sást varla birki á sandinum en nú blasir sístækkandi skógurinn við þegar keyrt er yfir sandinn. Náttúran er nefnilega ansi öflug þegar réttar aðstæður eru fyrir hendi. Endurheimtaraðgerðir snúa einmitt oftast að því að skapa réttu aðstæðurnar til að náttúran geti læknað sig sjálf. Hvort sem það er að gera óstöðugt yfirborð stöðugt þannig að plöntur geti fest rætur, bæta næringu á svæði þar sem hún er takmarkandi þáttur í að plöntur geti þrifist eða friða svæði fyrir beit.

Samkvæmt nýju stefnunni um landgræðslu og skógrækt á Íslandi á að halda áfram að leggja mikla áherslu á endurheimt votlendis – enda má með því draga verulega úr losun kolefnis auk þess sem að votlendi eru mikilvæg búsvæði margra fuglategunda og mikilvæg fyrir vatnsbússkap svæða. Mörg þeirra flóða sem eiga sér stað víðsvegar um heim verða einmitt vegna þess að með framræslu er búið að raska náttúrulegum vatnsbússkap svæða.

 

Það skýtur samt skökku við að á sama tíma og við eyðum fjármunum í að endurheimta votlendi er verið að ræsa fram álíka mikið. Votlendi njóta sérstakrar verndar samkvæmt náttúruverndarlögum og forðast skal að raska þeim nema brýna nauðsyn beri til. Það er skylda að afla framkvæmdaleyfis til sveitarstjórna vegna framkvæmda sem hafa í för með sér slíka röskun, en það er sjaldan gert.

Í stefnunni er einnig lögð áhersla á að beita vistkerfisnálgunum sem þýðir að við aðgerðir t.d. í landgræðslu og skógrækt og við nýtingu lands þarf að taka tillit til allra þátta vistkerfisins og mögulegum áhrifum nýtingar og aðgerða á einstaka þætti þess. Það er því lögð áhersla á að vanda vel til verka við undirbúning aðgerða, byggja aðgerðir á bestu vísindalegu þekkingu á hverjum tíma og hugsa fyrirfram út í langtímaáhrif aðgerða okkar á vistkerfin.

Á meðan við viljum auka mjög útbreiðslu birkiskóga þurfum við á sama tíma að hugsa hvaða áhrif sú aukning hefur á aðrar lífverur. Á sumum stöðum getur verið æskilegt að viðhalda mólendi - óröskuðu að sjálfsögðu- með hóflegri beit, í stað þess að endurheimta birkiskóga, til að tryggja að við höfum nægt búsvæði fyrir mófuglana okkar. Ef við hugsum ekki út í þetta í upphafi gætum við eftir 50 ár því verið komin með nýtt vandamál sem skapast af aðgerðum okkar.

Í öðru lagi leggur stefnan áherslu á að efla náttúrumiðaðar lausnir í loftslagsmálum í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar.

En hvað eru þessar náttúrumiðaðar lausnir?

Í náttúrumiðuðum lausnum er verið að hámarka getu náttúrunnar til að veita okkur þjónustur, svokallaðar vistkerfisþjónustur sem vinna meðal annars gegn hamfarahlýnun, tapi á líffræðilegri fjölbreytni og tryggja matvælaöryggi.

Hluta af því að berjast gegn hamfarahlýnun er að draga úr losun og auka bindingu kolefnis. Gróður og jarðvegur mynda saman einn stærsta kolefnisgeymi jarðar. Við getum stækkað þennan geymir og þar með kolefnisbindingu með því að auka gróður og vernda og byggja upp jarðveg. Við skógrækt og uppgræðslu lítt gróins lands verður aukning á kolefnisforða þess. Með því að koma í veg fyrir eða loka rofi á grónu landi, endurheimta votlendi og vernda kolefnisrík vistkerfi landsins erum við einnig að vernda þennan geymi. Þar sem að losun koltvísýrings frá röskuðum vistkerfum landsins er stærsti hluti útblásturs Íslands eru náttúrumiðaðar lausnir sem byggja á verndun og endurheimt vistkerfa og ræktun skóga lykilatriði til að Íslandi nái kolefnishlutleysi árið 2040.

Þriðji áherslupunktur stefnunnar er að stuðla að sjálfbærri landnýtingu.

Þegar við tölum um sjálfbæra landnýtingu á það við alla okkar nýtingu á vistkerfum, hvort sem að það er votlendi, beitarlönd, skógar eða ræktarlönd. Með því að nýta landið á sjálfbæran hátt göngum við ekki á þær auðlindir landsins sem m.a. liggja í gróðri- og jarðvegi og tryggjum að komandi kynslóðir geti einnig notið þeirra.

Dæmi um sjálfbæra landnýtingu er að tryggja að beit húsdýra sé á svæðum sem þola beitina og tryggja að beitin sé ekki of mikil. Í jarðrækt er mikilvægt að horfa til þess að stunda búskaparhætti sem vernda og viðhalda gæðum jarðvegs það

má t.d. gera með því að hafa akrana ekki opna yfir veturinn, sem getur olli því að efsta lag jarðvegsins með öllu sínu kolefni og næringu fýkur í burtu.

Í nágrannalöndunum er mikil áhersla lögð á að tengja betur stuðningsgreiðslur í landbúnaði við sjálfbæra nýtingu, og sett hafa verið upp ýmis viðmið þar að lútandi. Hérlendis er verið að vinna að reglugerð með leiðbeiningum og viðmiðum fyrir sjálfbæra landnýtingu, það verður spennandi að sjá hvað gerist með henni.

Fjórði áherslupunktur stefnunnar felur í sér að efla þekkingu, samstarf og lýðheilsu

Við þurfum víðtækt samstarf og sátt um verndun og endurheimt vistkerfa og sjálfbæra nýtingu lands, og við viljum líka að allir séu þátttakendur í þessari vegferð. Til að ná því markmiði er mikilvægt að auka þekkingu þjóðarinnar á vistkerfum landsins og mikilvægi þessara aðgerða.

Upplýsingarnar sem við fáum m.a. úr fjölmiðlum eru oft misvísandi og erfitt að vita hverjum við eigum að treysta þegar ein segir þetta og annar segir hitt.

Það er mikilvægt að vera með heilstæða, gagnsæja fræðslu og upplýsingagjöf þegar kemur að ástandi vistkerfa landisins. Líkt og Veðurstofa Íslands kemur með upplýsingar um veðurfar á Íslandi, Hafrannsóknarstofnun með upplýsingar um sjávarauðlindina þá þurfa upplýsingar um ástand gróður- og jarðvegsauðlindarinnar að vera fyrirliggjandi á einum stað, aðgengilegar öllum.

Fimmti og seinasta áherslupunkturinn snýr svo að því að tryggja að ofangreindar aðgerðir stuðli að sjálfbærri þróun byggðar í landinu.

Í stefunni kemur fram að gera eigi landshluta- og svæðisáætlanir í landgræðslu og skógrækt, þar sem grunnur verður lagður að sameiginlegri sýn fyrir hvert svæði um endurheimt vistkerfa, uppbyggingu auðlinda og sjálfbæra nýtingu.

Það felast nefnilega ótal tækifæri fyrir byggðir í landinu í þessari stefnu. Endurheimt vistkerfa og skógrækt eru atvinnuskapandi og endurnýjað styrktarkerfi í landbúnaði sem leggur áherslu á vernd, endurheimt og sjálfbæra nýtingu býður upp á marga nýja og spennandi möguleika.

Mín von er sú að með þessari stefnu og aðgerðaráætlun sem henni fylgir hafi Ísland stigið stórt skref í rétta átt. En stefna stjórnvalda ein og sér er ekki nóg. Það þarf að framfylgja stefnunni. Við höfum öll tækifæri til að sjá til þess að það verði gert, hvort sem að það er með því að taka þátt í endurheimtarstarfi í okkar nærumhverfi, vera hreyfiafl sem ýtir á þau sem hafa völdin eða fræða okkur og aðra um mikilvægi verndar og endurheimtar vistkerfa.