Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Banna kjötauglýsingar af umhverfisástæðum

07.09.2022 - 14:03
epa09070429 A view of an almost empty shopping street in the center of Haarlem, the Netherlands, 12 March 2021. The court in The Hague does not agree with branche organization INretail in the position that the government has not sufficiently weighed up interests in the decision to close the stores. This means that for the time being only 'click and collect' and shopping by appointment will continue to be allowed for non-essential stores.  EPA-EFE/REMKO DE WAAL
 Mynd: EPA - RÚV
Borgaryfirvöld í Haarlem í Hollandi hafa bannað kjötauglýsingar á auglýsingaskiltum í eigu borgarinnar. Frá og með árinu 2024 má ekki auglýsa kjöt á strætisvögnum, biðskýlum og upplýsingaskjám sem borgin heldur úti.

Bannið er sett á af umhverfisástæðum. Græningjar eru í meirihluta í borgarstjórn Haarlem og talsmaður flokksins segir ekki forsvaranlegt að nýta borgarrými til að auglýsa vöru sem hefur jafnmikil neikvæð umhverfisáhrif.

Talið er að kjötframleiðsla standi undir 14,5% af öllum útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum, en losunin nemur um 7,1 gígatonni af koltvísýringi á ári.

Ekki er vitað til þess að nokkur önnur borg hafi samþykkt viðlíka bann, og eins og gefur að skynja leggst það illa í talsmenn hollenska kjötiðnaðarins.

„Það að banna auglýsingar af pólitískum ástæðum jaðrar við einræðistilburði,“ segir Joey Rademaker, sem situr í borgarráði fyrir hægriflokkinn BVNL.

Þá ræðir hollenska dagblaðið Trouw við prófessor í stjórnskipunarrétti sem telur hugsanlegt að bannið geti brotið í bága við tjáningarfrelsisákvæði hollensku stjórnarskrárinnar.

Um 95 prósent Hollendinga borða kjöt, þar af 20 prósent á degi hverjum, samkvæmt tölum frá hollensku Hagstofunni.

alexandergk's picture
Alexander Kristjánsson
Fréttastofa RÚV