Allt að þrjátíu metrar af bráð undir skorpunni

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Jarðskjálfti 3,5 að stærð varð í nótt en upptök hans voru skammt norðan við gíginn í Meradölum. Ekki hefur sést glóð í gígnum í rúmlega tvær vikur. Þrátt fyrir það hafa um þúsund farið á gossvæðið síðustu daga. Vísindamenn telja að það gæti tekið tvö til tíu ár fyrir hraunið að fullstorkna. Þar sem það er þykkast í kringum gíginn, kraumar enn allt að þrjátíu metra bráð. Eftir rúmlega viku af Meradalaeldgosinu kom kvikan af meira dýpi en fyrstu dagana, samkvæmt niðurstöðum Jarðvísindastofnunar.

Fyrir utan eftirskjálftavirknina í dag hefur allt verið með nokkuð kyrrum kjörum í Meradölum í rúmlega tvær vikur. Þá sáust síðast eldtungur í gígnum. Náttúruvársérfræðingar hjá Veðurstofunni telja líklegt að gosrásin hafi stíflast, enn sé þó of snemmt að lýsa yfir goslokum. 

Kvika í „rörinu“ sem þurfti að klára

Sérfræðingar Jarðvísindastofnunar hafa undanfarið legið yfir gjósku og hraunsýnum sem var safnað á meðan gosið í Meradölum stóð. Niðurstöður sýna að lítill munur er á efnasamsetningu þeirra milli ára og bergfræðileg ásýnd sýnanna er líka svipuð.

Eldgos í Meradölum, björgunarsveit, björgunarsveitir, meradalir, eldfjall, eldgos
 Mynd: Sunna Karen Sigurþórsdóttir - RÚV

Fyrstu dagana kom upp kvika sem hafði líklega legið í gosrásinni í heilt ár eða frá síðasta gosi að mati Þorvaldar Þórðarsonar, prófessors í eldfjallafræði. Kvika á áttunda degi eldgossins kom úr meira dýpi, nærri mörkum skorpu og möttuls.

„Það er langeinfaldast að hugsa þetta sem rör. Það er eitthvað í rörinu fyrir, það nær frá einhverju dýpi og er tiltölulega grunnt, segjum bara þriggja til fjögurra kílómetra dýpi. Kvikan sem vill komast upp á yfirborð og kemur gosinu af stað, þessi djúpstæða kvika, þarf að ýta öllu þessu út áður.“

Í sýni sem var tekið á áttunda degi sáu vísindamenn kviku úr dýpra geymsluhólfinu. „Mjög neðarlega, á fimmtán til tuttugu kílómetra dýpi. Þessi frumstæða kvika sem passar alveg við það sem við sáum í gosinu 2021,“ segir hann.

8% af því sem kom upp í Fagradalsfjalli

Jarðvísindastofnun hefur ekki tekist að fljúga yfir og mæla hraunið frá því um miðjan ágúst eða um viku áður en gosvirknin hætti. Þá var hraunið orðið mest um 30 metra þykkt, þar sem það er þykkast í kringum gíginn, en vísindamenn telja að lítið hafi bæst við síðan.

Heildarrúmmál gosefna var 12 milljón rúmmetrar eða um átta prósent af því sem kom upp í Fagradalsfjalli í fyrra. Meðal hraunflæði var sjö rúmmetrar á sekúndu, eða aðeins lægra en meðaltalið fyrir gosið 2021, samkvæmt mælingum jarðvísindastofnunar. 

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV

Hraunið storknar á tveimur til tíu árum

Kvikan var allt að 1200 gráðu heit allan gostímann, sem er svipað og í gosinu 2021. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum sendi frá sér tilkynningu í síðustu viku til að árétta að þó að ekki sjáist glóð í gígnum sé hraunið enn hættulega hætt og bannað að fara út á það.

Síðustu daga hafa um og yfir þúsund manns gert sér ferð að umbrotasvæðinu, samkvæmt teljara Ferðamálastofu. Eftir að gos hófst að nýju bar á því að fólk stytti sér leið yfir gamla hraunið, sem er stórhættulegt.

Fyrstu dagana þykknaði hraunið í kringum gossprunguna hratt, því er meirihluti hraunsins enn þá bráðið að mati Magnúsar Tuma Guðmundssonar, prófessors í jarðvísindum. Hann telur að í kringum gíginn sé tveggja til tveggja og hálfs metra þykk skorpa og undir því um 25 til 28 metrar af bráð. Það gæti tekið tíu ár áður en hraunið við gíginn er að fullu storkið miðað við líkön sem lýsa storknun og kólnun hrauna.

Gosið kom upp í lokaðri dæld. Þar sem það er ekki jafn þykkt og við gíginn til dæmis, um tíu metrar, má reikna með að það gæti tekið tvö til þrjú ár fyrir hraunið að storkna alveg.

Mynd með færslu
 Mynd: Hólmfríður Dagný Friðjónsd - RÚV

10-20% kvikunnar koma upp í eldgosi

Þorvaldur telur líklegast að eldgosinu í Meradölum sé lokið. Enn kraumar þó kvika í iðrum jarðar, því telur Þorvaldur að eldgosatímabil sé hafið í skaganum.

„Mjög líklega er talsvert magn eftir þarna niðri bara spurning hversu mikið. Kannski vísbending um það er að magn kviku sem kemur upp í eldgosi er kannski 10-20% af því magni sem er í geymslugáminum þarna niðri. Miðað við rannsóknir og niðurstöðu sem menn hafa fengið þá er það þetta hlutfall,“ segir Þorvaldur.

Tilbúin eða nærri tilbúin í gos

Eldstöðvakerfin á Reykjanesi hafa líka haft tíma til þess að safna kviku upp í þessi hólf, í allt að 780 ár. „Við megum alveg búast við því að þessi geymsluhólf séu tiltölulega stór, með tiltölulega mikla bráð þarna niðri og séu að verða tilbúin eða séu tilbúin til þess að gjósa.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Vika, ár eða nokkur ár

Hvenær kemur þá næsta eldgos? „Það styttist í það.“ segir Þorvaldur og hlær. „Það er ómögulegt að segja, það getur komið eftir viku eða á næsta ári, en það getur líka komið nokkurra ára pása.“

Miðað við hversu afllítil síðustu tvö gos í Geldinga- og Meradölum hafa verið segir Þorvaldur að litlar líkur séu á að kvika brjóti sér leið upp á yfirborð nema eftir kröftugar jarðhræringar, eins og íbúar á Suðvesturhorninu kannast við eftir síðustu tvö gos. „Ef við fáum aðra öfluga skjálftahrinu með hreyfingum á plötumótunum þá getum við búist við öðru gosi, en ekki fyrr en þá.“

Líkön til að vernda innviði

Næstu skref hjá vísindamönnunum snúa að fyrirbyggjandi aðgerðum. „Hvað getum við gert til að draga úr áhrifum hraungoss á Reykjanesskaga á þá innviði sem eru þar og eru mikilvæg fyrir samfélögin á Reykjanesskaga.“ Til þess að rannsaka slíkt er hægt að nota stærðfræðileg líkön og herma sem líkja eftir hraunum.

„Hinar og þessar aðferðir til að sjá hvers konar varnir maður getur búið til, til þess að beina hraunflæðinu í þá átt sem maður vill að það fari. Þetta er það sem við erum að einbeita okkur að í augnablikinu. Þessi praktíska hlið er mikilvæg fyrir samfélagið á Reykjanesskaga og það er mikilvægt að fara í slíka vinnu.“

06.09.2022 - 14:57