Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Vilja að ríku löndin borgi loftslagsskaðabætur

05.09.2022 - 10:48
epa10157451 A flooded area in Khairpur Nathan Shah, Dadu district, Sindh province, Pakistan, 03 September 2022. According to the National Disaster Management Authority (NDMA) on 03 September, at least 57 people were killed in flood-related incidents over the past 24 hours in Pakistan, bringing to 1,265 the number of victims who died across Pakistan since the beginning of the heavy monsoon rains season in mid-June 2022. Around 33 million people have been affected by the heavy rains and flooding, while more than 470,000 people are living in collective sites, according to NDMA.  EPA-EFE/WAQAR HUSSEIN
 Mynd: EPA - RÚV
Auðugari ríki heims ættu að greiða hinum fátækari skaðabætur þar sem þau bera ábyrgð á mun meiri útblæstri gróðurhúsalofttegunda og þar með loftslagsbreytingum. Þetta sagði Sherry Rehman, loftslagsmálaráðherra Pakistans, í viðtali við The Guardian.

Nærri 1.300 hafa farist í hamfaraflóðum í Pakistan á síðustu vikum. Flóðvatn þekur enn um þriðjung landsins eftir fordæmalaust mikið monsúnregn.

Að sögn Rehman hafa ríkari þjóðir heims ekki staðið við loforð sín um að minnka útblástur og aðstoða þróunarríki við að aðlaga sig að breyttu loftslagi. Því þurfi þau að greiða skaðabætur enda bitni breytt loftslag einna helst á fátækari löndum.

„Hnattræn hlýnun er gríðarlegt vandamál og staðan er einna verst hér í Pakistan. Samt berum við ekki nema ábyrgð á um einu prósenti alls útblástur. Við vitum það öll að það hefur ekki verið staðið við milliríkjasáttmála,“ sagði Rehman.

Þá sagði hún að Pakistansstjórn muni tala hátt og skýrt fyrir breyttri nálgun. Þörf sé á að setja ný markmið í loftslagsmálum enda versni staðan hraðar en gert var ráð fyrir. Í frétt The Guardian segir að auðug ríki hafi hingað til lítið viljað gera til að veita þróunarlöndum neyðaraðstoð vegna loftslagshamfara og vilji ekki eiga í raunverulegum viðræðum við ríki eins og Pakistan, sem bera litla ábyrgð á vandanum en þurfa að takast á við einna mestu afleiðingarnar.

Rehman segir engan áhuga á viðræðum um skaðabætur. Því þurfi Pakistan að takast eitt á við vandann. 

Í skýrslu sem dönsku samtökin Oxfam IBIS birtu fyrir helgi kom fram að töluverður munur er á útblæstri efnaminni og efnameiri jarðarbúa. Þar kom fram að ríkasta prósent mannkyns beri ábyrgð á tvöfalt meiri útblæstri en allur fátækari helmingur manna.

Þórgnýr Einar Albertsson