Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Segir að árásarmennirnir verði látnir svara til saka

05.09.2022 - 06:12
Canada's Prime Minister Justin Trudeau announces new gun control legislation in Ottawa, Ontario, on Monday, May 30, 2022. (Patrick Doyle/The Canadian Press via AP)
 Mynd: AP - RÚV
Minnst tíu eru látin og 15 særð eftir hnífaárásir í Saskatchewan í Kanada. Árásarmennirnir eru á flótta undan lögreglu. Forsætisráðherra landsins segir að þeir verði látnir svara til saka.

Kanadíska lögreglan leitar tveggja ódæðismanna sem eru grunaðir um að hafa gengið berserksgang snemma í morgun í tveimur fámennum bæjum í fylkinu, í James Smith Cree frumbyggjasamfélaginu, þar sem búa um 3,400 manns og í þorpinu Weldon, þar sem búa aðeins um 200.

Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sendi frá sér yfirlýsingu í gær þar sem hann lofaði að hinir seku yrðu kallaðir til ábyrgðar. Hann sagðist miður sín og að þessar hryllilegu árásir hefðu komið sér í opna skjöldu. 

Íbúar í Weldon og James Smith Cree hafa stigið fram hver af öðrum í morgun til þess að lýsa skelfingunni sem greip um sig í þessum yfirleitt rólegu bæjum. Einn íbúi deildi mynd af brotnum hurðarhúni og þakkaði fyrir að enginn hefði verið heima þegar brotist var inn í íbúð systur hennar.

77 ára maður meðal fórnarlambanna

Yfirvöld hafa ekki greint frá nöfnum hinna látnu en bæjarbúar greindu sjálfir frá því að eitt fórnarlambið hefði verið Wes Peterson, 77 ára gamall ekkill. Nágrannar lýsa honum sem ljúfum manni sem hefði aldrei gert flugu mein. Barnabarni hans tókst að fela sig í kjallara heimilis þeirra og hringja í neyðarlínuna, þegar árásarmennirnir réðust inn.

Rhonda Blackmore, aðstoðarlögreglustjóri í Saskatchewan, sagði lögregluna ætla að nýta öll sín bjargráð til þess að hafa uppi á morðingjunum.

Hnífaárásirnar í Saskatchewan eru taldar vera með mannskæðustu fjöldamorðum í sögu fylkisins.