Serena kveður tennisvöllinn eftir tap á Opna bandaríska

epaselect epa10156198 Serena Williams of the United States waves to the crowd after being defeated by Ajla Tomljanovic of Australia, during the third round at the US Open Tennis Championships at the USTA National Tennis Center in Flushing Meadows, New York, USA, 02 September 2022. The US Open runs from 29 August through 11 September.  EPA-EFE/JASON SZENES
 Mynd: EPA-EFE - EPA

Serena kveður tennisvöllinn eftir tap á Opna bandaríska

03.09.2022 - 10:53
Serena Williams féll í nótt úr leik á Opna bandaríska meistaramótinu í tennis eftir harða baráttu við Ajla Tomljanovic frá Ástralíu. Williams hafði áður tilkynnt að mótið yrði hennar síðasta.

Williams mætti Ajla Tomljanovic í þriðju umferð mótsins og tapaði eftir spennandi viðureign þar sem hún vann annað settið eftir upphækkun en viðureignin fór að lokum 7-5, 6-7 (4-7), 6-1. Williams hafði í annarri umferðinni mætt Anett Kontaveit frá Eistlandi en Kontaveit situr í öðru sæti heimslistans. Williams tilkynnti í viðtali við bandaríska tískutímaritið Vogue í ágúst að hún hygðist eftir Opna bandaríska „þróast í aðra átt, frá tennis,“ og þrátt fyrir að hún hafi ekki viljað segjast hætt þá var viðureignin í gær að öllum líkindum sú síðasta á 27 ára keppnisferli Williams. Hún er af mörgum talin ein besta íþróttakona sögunnar.

Samtals á hún 23 risatitla í einliðaleik og aðra 14 í tvíliðaleik ásamt systur sinni Venus. Williams var því aðeins einum risatitli frá því að jafna sigursælustu tenniskonu sögunnar, Margaret Court, sem vann 24 risamót. Eftir viðureignina í gær þakkaði hún stuðningsfólkinu sem hafi fylgt henni eftir í fjölda mörg ár og áratugi, foreldrum sínum og systur.

„Ég væri ekki Serena ef það væri ekki Venus þannig takk Venus. Hún er eina ástæða þess að Serena Williams var nokkurn tíman til.“

Williams verður 41 árs í september og viðtalinu við Vogue talaði hún meðal annars um hve erfitt það væri að horfast í augu við þá staðreynd að endalokin í tennisnum nálguðust. Henni sé þó illa við orðið starfslok (e. retirement) og talar því frekar um að hún þróist nú í átt frá tennis. 

„Trúið mér, ég hef aldrei viljað þurfa velja á milli tennisins og fjölskyldunnar. Mér finnst það ekki sanngjarnt. Ef ég væri karlmaður væri ég ekki að skrifa þetta því ég væri að spila og vinna meðan konan mín væri heima að sinna líkamlegu vinnunni við að stækka fjölskylduna,“ sagði Williams en hún á nú þegar eina dóttur, Olympiu, sem hún eignaðist í september árið 2017. Hún hefur talað opinberlega um að hana langi til að stækka fjölskylduna. 

Tengdar fréttir

Tennis

Serena Williams ætlar að hætta

Tennis

Serena Williams snýr aftur