Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Breyta þurfi vinnustaðamenningunni

02.09.2022 - 12:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Formaður VR segir að sláandi niðurstöður um fjölda kvenna sem hafi verið beittar kynferðislegri áreitni á vinnustað komi sér ekki á óvart. Þær séu í samræmi við kannanir sem félagið hafi gert. Hann segir að taka verði á þessu vandamáli og breyta vinnustaðamenningu.   

Þriðja hver kona á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað á lífsleiðinni, samkvæmt umfangsmikilli rannsókn vísindamanna við Háskóla Íslands sem fréttastofa greindi frá í gær. Átta prósent kvennanna sögðust hafa orðið fyrir slíku á þeim vinnustað sem þær störfuðu á þegar þær tóku þátt í rannsókninni. 

„Þetta kemur okkur ekki á óvart. Við höfum verið að skoða þetta síðustu ár og farið í herferðir sem snúa að vitundarvakningu um samskipti á vinnustað. Við gerðum meðal annars könnun árið 2017 þar sem við spurðum félagsfólk þessara spurninga og niðurstöðurnar voru vægast sagt sláandi þá, en þá höfðu um 52 prósent kvenna orðið fyrir kynferðislegri áreitni á sinni starfsævi.” 

Kúltúr sem verði að breyta 

Rannsóknin var birt í Lancet, einu virtasta vísindariti heims, í gær og er ein sú stærsta sinnar tegundar. Áreitni og ofbeldi reyndist algengara gagnvart yngri konum, og konum með óreglulegan og langan vinnutíma. Ragnar segir að vitundarvakning í málaflokknum sé mikilvæg. 
 
„Þetta er auðvitað vandamál, kúltúr, sem við verðum að taka á og reyna að breyta. Sem betur fer hefur verið mikil vakning í okkar samfélagi gagnvart kannski því hver mörkin eru og eiga að vera.“

Hann mælir með að fólk leiti til stéttarfélagsins sé brotið á því, en að hingað til hafi stéttarfélagið ekki fengið til sín mörg mál í tengslum við áreitni eða ofbeldi - að minnsta kosti ekki eins mörg og niðurstöðurnar gefa til kynna.  

„En eitt mál er einu máli of mikið og við höfum líka verið að fylgjast með hvað fyrirtækin eru að gera. Sem betur fer eru merki þess að fyrirtækin eru í auknum mæli að koma sér upp verklagi sem tekur betur á þessum málum heldur en hefur verið, allavega í sögulegu samhengi.“

 

sunnaks's picture
Sunna Karen Sigurþórsdóttir
Fréttastofa RÚV