Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Aðeins 10% þolenda hjá Stígamótum kæra til lögreglu

Mynd með færslu
 Mynd: Fréttir
Aðeins tíu prósent þeirra sem leituðu aðstoðar Stígamóta á síðasta ári, eftir að verða fyrir kynferðisofbeldi, kærðu mál sín til lögreglu. Aldrei hafa fleiri brotaþolar leitað sér aðstoðar í fyrsta sinn hjá samtökunum og í fyrra, eða 465 einstaklingar.

Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Stígamóta.

Alls leituðu 952 til samtakanna á síðasta ári. Einnig sótti metfjöldi aðstandenda þolenda kynferðisofbeldis viðtöl hjá Stígamótum, eða 96 einstaklingar. Þá er talið að aukninguna megi rekja til nýrrar MeToo bylgju sem hófst vorið 2021. Við árslok voru um tvö hundruð manns á biðlista.

Aldrei eins margir þolendur stafræns kynferðisofbeldis

Flestir leituðu til samtakanna vegna nauðganna, eða rúm 67%. Um 54% vegna kynferðislegrar áreitni og 33% vegna sifjaspella. Aldrei hafa eins margir leitað til Stígamóta vegna stafræns kynferðisofbeldis, en á einu ári fór það hlutfall úr tæpum 9% í 21%.

Samkvæmt tölum samtakanna voru langflestir gerendur ofbeldisins karlar, eða 95,6%, flestir á aldrinum 18 til 29 ára.