Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Mjaldrasysturnar verða ekki fluttar í Klettsvík í ár

30.08.2022 - 13:59
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mjaldrasysturnar Litla Hvít og Litla Grá verða ekki fluttar í sjókvína í Klettsvík við Vestmannaeyjar í sumar. Allt var til reiðu fyrir flutninginn um miðjan mánuð þegar bátur sökk í víkinni. Umsjónarmaður mjaldranna segir að þetta séu mikil vonbrigði.

Mjaldrasysturnar voru fluttar til Íslands þar sem átti að gefa þeim tækifæri til að lifa við ákjósanlegar aðstæður í kví í Klettsvík. Þær ólust upp í umsjón manna og geta ekki bjargað sér úti í náttúrunni. Til stóð að aðlaga þær smátt og smátt lífinu í kvínni. Þær komu til landsins 2019. Sumarið 2020 voru þær settar í kvína en hafa annars verið í laug í húsnæði samtakanna Sea Life Trust í Vestmannaeyjum.

Gert var ráð fyrir að mjaldrarnir færu aftur í laugina á veturna fyrstu árin en þetta er annað árið sem ekki er hægt að setja systurnar í kvína. Audrey Padgett, framkvæmdastjóri Sea Life Trust, segir þetta vonbrigði. „Við komumst að því að morgni sunnudagsins 14. ágúst að bátur hefði sokkið við kvína í Klettsvík.“  Audrey segir þetta hafa verið nokkrum klukkutímum áður en flytja átti mjaldrana. „Við getum ekki flutt Litlu Hvít og Litlu Grá á griðastaðinn sinn í Klettsvík fyrr en næsta vor,“ segir Audrey en til þess að ná upp bátinum sem sökk þurfti að hluta kvína í sundur. Jafnframt þarf að hreinsa upp olíumengun sem fylgdi til þess að víkin verði örugg fyrir mjaldrana.

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir