Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Húsnæðismál flöskuháls í móttöku flóttafólks

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Viðar Hákon Gíslason - RÚV
Sveitarfélög vilja taka á móti flóttafólki en húsnæði skortir, segir félagsþjónustufulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þátttaka ríkisins í kostnaði við móttöku flóttafólks hefur verið samræmd.

Áður samdi ríkið við sveitarfélög um móttöku kvótaflóttafólks og endurgreiðslu kostnaðar. Undanfarin ár hefur umsóknum um um alþjóðlega vernd fjölgað og það kallaði á samræmingu. Í fyrra komu um þúsund flóttamenn til landsins. Á þessu ári eru þeir orðnir tvö þúsund og gert er ráð fyrir að þeir verði á bilinu þrjú til fjögur þúsund á árinu.

María Kristjánsdóttir félagsþjónustufulltrúi hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga segir að því fylgi óhjákvæmilega kostnaður þegar fólk á flótta sest að í sveitarfélagi. „Sveitarfélögin, þeim ber náttúrulega að veita grunnþjónustu en þegar að flóttafólk kemur til landsins, fær lögheimili í viðkomandi sveitarfélagi, þá er tekið tillit til þess að þetta kallar á svona viðbótarþjónustu hjá sveitarfélögunum sem er meiri en grunnþjónustan.“

Með fólki sem kemur eitt, og fær alþjóðlega vernd, greiðir ríkið 485.088 krónur á ári í þrjú ár. Meira er greitt með hjónum og aukalega með hverju barni. Hærri upphæð er greidd með kvótaflóttafólki. „Vegna þess að fólk sem kemur á eigin vegum það er búið að vera á landinu í nokkurn tíma þannig að þjónusta er minni sem þarf að veita þeim þegar þau fá lögheimili í sveitarfélaginu. Þegar þú ert kvótaflóttamaður þá kemur þú bara beint til sveitarfélagsins.“

Fimm sveitarfélög tóku þátt í tilraunaverkefni um þátttöku ríkisins í kostnaði og var komið til móts við ábendingar þeirra. María segir að sveitarfélög vilji taka á móti flóttafólki. „Það voru alveg 38 sveitarfélög sem voru viljug til að taka á móti flóttafólki en sveitarfélögin eru áhyggjufull vegna húsnæðismála. Það er flöskuháls.“

astahm's picture
Ásta Hlín Magnúsdóttir