Flóðin hafa staðið yfir síðan í júní, en aukist til muna síðustu fjóra dagana. Þau hafa mest áhrif í suðurhluta landsins, héruðunum Sindh og Balochistan, þar sem þau Sakina og Mabi eru. Þar hefur rignt yfir fimm sinnum meira en í meðalári.
Loftslagssérfræðingur óttast að allt að þriðjungur landsins fari undir vatn áður en yfir lýkur og kallar flóðin loftslagshamfarir. Hátt í milljón heimili hafa eyðilagst eða stórskemmst í flóðunum.
Og í þokkabót er héraðið einangrað vegna flóðanna og reynt hefur verið að dreifa hjálpargögnum þangað úr lofti. Mir Ziaullah Langau samhæfingarstjóri hjá almannavörnum í landinu segir að eftir miklar rifningar í gær, þar sem brú í Bolan hafi eyðilagst sé héraðið Baluchistan í raun samgöngulega rofið frá afgangnum af landinu.
Stjórnvöld lýstu yfir neyðarástandi á föstudag sem gildir fram á þriðjudag. Þá óskuðu þau eftir aðstoð frá alþjóðasamfélaginu og hafa Bandaríkjamenn, Bretar og Sameinuðu arabísku furstadæmin þegar brugðist við. En fyrir þá sem eru í neyð er aðstoðar þörf sem allra fyrst.
Í spilaranum hér að ofan má horfa á umfjöllun um málið í kvöldfréttum.