Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Strætó aldrei tapað jafn miklu

26.08.2022 - 19:00
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Strætó tapaði tæplega sex hundruð milljónum króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Leitað verður leiða til hagræðinga og reynt verður að komast hjá að fækka ferðum og skerða þjónustu.

Það er ekki nýtt að Strætó sé rekinn með tapi en það hefur þó aldrei verið jafn mikið. Gert er ráð fyrir að það verði um einn milljarður í ár. Á fyrstu sex mánuðum ársins var tapið 599 milljónir miðað við 254 milljónir á sama tíma í fyrra samkvæmt árshlutauppgjöri. Fargjaldatekjur jukust um tólf prósent og rekstrargjöld einnig um tólf prósent. Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó segir að tapið hafi ekki komið á óvart en sé töluvert meira en áætlanir hafi gert ráð fyrir, covid faraldurinn hafi haft veruleg áhrif á rekstur Strætó, líkt og á sambærileg fyrirtæki um allan heim. 

„Olíuverð hefur hækkað um kannski 50 prósent á þessu ári. Við gerðum ráð fyrir því að það lækkaði og notuðum svo sem bara tölur úr þjóðhagsspá frá því á síðasta ári þegar við gerðum áætlunina. En verðbólguskotið, launakostnaður, stytting vinnuvikunnar, allt hefur þetta kostað meira en áætlanir gerðu ráð fyrir og skýrir þá kannski svona mismuninn milli áranna.

Þjónusta verður ekki skert 

Jóhannes segir að Strætó hafi hagrætt um 600 milljónir á síðustu þremur árum og fengið 120 milljónir frá ríkinu vegna covid faraldursins. Það fé hafi horfið fljótt í rekstrarumhverfinu í ár. Besta lausnin til að bregðast við tapinu væri ef rekstrarárið yrði fullfjármagnað af eigendum, sem eru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu en umræður um það eru nú í gangi. Hann segir að ferðum verði ekki fækkað og að forðast verði frekari niðurskurð á þjónustu. 

„Það verður síðasta lausnin að skerða þjónustu. Það er ákveðin uppbygging sem er að eiga sér stað í almenningssamgöngum hér á höfuðborgarsvæðinu og það væru mjög röng skilaboð ef við færum að skera verulega mikið meira niður.“

Miðaverð mögulega hækkað um áramót

Stök fargjöld  í Strætó hækkuðu síðast í byrjun síðasta árs en þau hækka yfirleitt í samræmi við verðlagsforsendur og hækkanir á vísitölu um áramót. Jóhannes segir að nú sé verið að vinna að fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. 

„Ein lausnin er að hækka eitthvað miðaverðið en það er ekki búið að ákveða neitt. Vísitalan hefur verið að hækka á þessu ári allt að tíu prósent og það yrði þá hámarks hækkunin.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó.