Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Pussy Riot með sýningu í Þjóðleikhúsinu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV

Pussy Riot með sýningu í Þjóðleikhúsinu

26.08.2022 - 08:20

Höfundar

Rússneski listahópurinn Pussy Riot verður með sýningu í Þjóðleikhúsinu í nóvember. Frá þessu sagði Magnús Geir Þórðarson leikhússtjóri í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Hann sagði þetta verða leiksýningu, listgjörning og tónleika og er hún skipulögð í samhengi við fyrstu yfirlitssýningu Pussy Riot sem opnar í Kling & Bang í sama mánuði.

„Þetta er auðvitað mjög merkilegur hópur sem við þekkjum öll og höfum fylgst með í fjölmiðlum á síðustu árum. Þetta er hljómsveit og gjörningalistahópur, pólitískt afl, sem kom hingað í vor og vann í Þjóðleikhúsinu að undirbúningi sýningar sem þau hafa verið að ferðast með um Evrópu í sumar og fengið afskaplega góðar viðtökur, frábæra dóma,“ sagði Magnús Geir.

Meðlimir hópsins eru feministar sem berjast fyrir margvíslegum réttindum og eru harðir andstæðingar Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta. Þær hafa verið ofsóttar af rússneskum stjórnvöldum fyrir pólitíska afstöðu sína.

„Gjörningar Pussy Riot eru án efa einhver mikilvægustu pólitísku listaverk 21. aldarinnar. Ef einhverjir listamenn hafa gefið allt fyrir listina þá eru það þessir töffarar. Þungamiðjan í sýningunni er saga Möshu og lýsing hennar á helvítinu sem Rússland Pútins er,“ segir Ragnar Kjartansson listamaður sem hefur verið hópnum innan handar.

Ragnar vísar þar til Möshu Aljokhína, forsprakka hópsins sem slapp naumlega frá Rússlandi í vor. 

Tengdar fréttir

Innlent

Aðstoðaði við lygilegan flótta liðskonu Pussy Riot

Stjórnmál

Tveir meðlimir Pussy Riot í hungurverkfalli

Menningarefni

Meðlimir Pussy Riot handteknir aftur