Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Moderna í mál við Pfizer vegna mRNA bóluefna

Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Bóluefnaframleiðandinn Moderna hefur höfðað mál gegn keppinauti sínum Pfizer BioNTech fyrir að brjóta gegn lögum um einkaleyfi við framleiðslu bóluefna gegn Covid-19. Forsvarsmenn Moderna telja PfizerBioNTech hafa nýtt þeirra tækni við framleiðslu bóluefnanna, án þeirra leyfis.

Málið höfðar Moderna gegn Bandaríska fyrirtækinu Pfizer annarsvegar fyrir dómstólum í Massachussets og þýska hluta fyrirtækisins BioNTech, hins vegar, í Dusseldorf.

Segja Pfizer hafa líkt nákvæmlega eftir þeirra mRNA tækni

Í yfirlýsingu frá Moderna segir að fyrirtækið hafi verið brautryðjandi með nýrri tækni sem það þróaði fyrir heimsfaraldurinn, og hafi verið notað í framleiðslu bóluefnisins Spikevax, gegn COVID-19. Pfizer og BioNTech hafi líkt nákvæmlega eftir þessari tækni, án þeirra leyfis, við framleiðslu bóluefnisins Comirnaty. Þessi tækni hafi skipt sköpum í baráttunni við heimsfaraldur kórónuveirunnar.

Tæknin sem framleiðendurnir deila um er notuð við framleiðslu nýrrar tegundar bóluefna, eða mRNA bóluefna. Hún byggir á því að bóluefni innihaldi hluta af erfðaefni veirunnar, en þá framleiði frumur líkamans broddprótín veirunnar. Ónæmiskerfið ráðist þá að þessum framandi prótínum og eyði þeim. Ef bóluefnið virkar rétt ætti líkaminn að gera slíkt hið sama þegar COVID-19 veirur koma inn í líkamann.

Með lögsókninni hyggst Moderna sækja skaðabætur, en ekki var greint frá upphæðinni. Fyrirtækið fjárfesti í nýju mRNA tækninni fyrir milljarða dollara. Moderna og Pfizer BioNTech voru fyrstu bólefnaframleiðendurnir til þess að koma á markað bóluefni gegn COVID-19.