Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Undirbúa sérstaka saksókn gegn Pútín og fylgismönnum

epa07049000 Russian President Vladimir Putin looks on during a working meeting in the Novo-Ogaryovo residence outside Moscow, Russia, 26 September 2018.  EPA-EFE/MICHAEL KLIMENTYEV/SPUTNIK/KREMLIN POOL MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL
Úkraínskir embættismenn eru í óðaönn að undirbúa saksókn á hendur Vladimír Pútín forseta Rússlands, æðstu yfirmönnum rússneska hersins og fjölda annarra fyrir að efna til innrásar í Úkraínu.

Andrii Smirnov, næstæðsti yfirmaður forsætisnefndar Úkraínu, stýrir undirbúningi að stofnun alþjóðlegs dómstóls sem ætlað er að fjalla um ávirðingar á hendur Rússlandsforseta.

Fjölmenni á lista Úkraínumanna

Um það bil 600 Rússar eru sakaðir um aðild að yfirganginum gegn Úkraínu. Auk Pútíns má finna háttsetta foringja í Rússlandsher, stjórnmálamenn og fjölmiðlafólk á lista Úkraínumanna.

Dómstólnum er ætlað að rannsaka hvort innrásin fari í bága við ákvæði um upptök að ófriði í Rómarsamþykktinni um Alþjóðlega sakamáladómstólinn.

Drög að samkomulagi eru tilbúin og bíða staðfestingar ríkisstjórna þeirra landa sem aðild eiga að samþykktinni. Smirnov segir að handtaka megi hvern þann sem sakfelldur verður í viðkomandi löndum.

Sakamáladómstóllinn sjálfur rannsakar ásakanir á hendur Rússa um stríðsglæpi, glæpi gegn mannkyni og þjóðarmorð í Úkraínu.

Hins vegar hafa hvorki Rússar né Úkraínumenn fullgilt Rómarsamþykktina og því er sérstakur dómstóll eina leiðin til að þeir sem hófu innrásina verði sóttir til saka að mati Smirnovs.

Lögmæti dómstólsins þarf að vera mikið

Andreii Smirnov segir að lögmæti dómstólsins þurfi að vera mikið en réttarkerfi Úkraínu hefur legið undir ámæli fyrir spillingu og skort á sjálfstæði. Þó hafa nokkrar umbætur verið gerðar á því undanfarin ár.

Smirnov segir að saksókn þurfi að gerast hratt, helst ekki seinna en á næsta ári, í ljósi þess hve skammvinnt minni heimsbyggðarinnar sé. Smirnov er þess fullviss að nokkur ríki staðfesti samkomulag um dómstólinn fyrir árslok. 

Pólverjar og stjórnvöld í Eystrasaltsríkjunum styðja hugmyndina en viðbrögð Frakka og Þjóðverja eru öllu hæglátari. Smirnov segir að það skýrist meðal annars af væntingum þeirra til mögulegra samninga við Pútín.

Þó telur hann að stuðningur við sérstakan dómstól fari vaxandi í Vestur-Evrópu. Smirnov kveðst meðvitaður um að enginn hinna ákærðu verði viðstaddur réttarhöldin.

Hins vegar sé áríðandi að þeir sem lögðu á ráðin um innrásina í Úkraínu verði meðhöndlaðir sem glæpamenn svo þeir geti hvergi farið um hinn siðmenntaða heim að mati Andrii Smirnov.