Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Takmarka netnotkun stjórnarandstæðings í Rússlandi

25.08.2022 - 21:06
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Yevgeny Roizman, einn þeirra fáu stjórnarandstæðinga sem eftir eru í Rússlandi, var handtekinn á heimili sínu í Yekaterinburg í gær en sleppt aftur í dag. Roizman er fyrrum borgarstjóri Yekaterinborgar og var handtekinn fyrir að gagnrýna innrás Rússa í Úkraínu og fyrir að nota orðið innrás um hernaðinn. Hann gæti átt allt að þriggja ára fangelsi yfir höfði sér.

Roizman er meðal annars bannað að nota netið og að mæta á opinbera viðburði, samkvæmt úrskurði dómara í morgun. Þá má hann ekki senda nein bréf ná fá bréf send. Þessar takmarkanir gilda til 29. september. Húsleit var gerð á heimili hans í gær og í höfuðstöðvum hjálparsamtaka sem hann fer fyrir og stofnaði. 

Handtökunni mótmælt 

Rússneski fjölmiðillinn The Moscow Times greinir frá því að um þrjátíu manns hafi komið saman í miðborg Yekaterinburgar í gærkvöld til að mótmæla handtökunni og lýsa yfir stuðningi við borgarstjórann fyrrverandi. Þá voru einsmanns mótmæli víðar í borginni og í höfuðborginni Moskvu. 

Lögregla hefur tekið enn harðar á mótmælendum og stjórnarandstæðingum eftir innrásins í Úkraínu í lok febrúar. Talið er að yfir 200 manns eigi yfir höfði sér fangelsi fyrir að kalla stríðið stríð eða innrás. Um 16.500 hafa verið handtekin í mótmælum gegn innrásinni. 

Bjóst við handtöku

Roizman var einn fárra stjórnarandstæðinga sem var enn frjáls. Fram kemur í The Guardian að hann hafi vitað að það væri aðeins tímaspursmál hvenær hann yrði handtekinn. Hann var tilbúinn að tannbursta, tannkrem og aðrar nauðsynjar í tösku til að taka með sér í fangelsið. 

Yekaterinburg er fjórða stærsta borg landsins og þar var Roizman borgarstjóri frá 2013 til 2018 og átti sæti í neðri deild rússneska þingsins. 

Hér má sjá færslu Roizman á Twitter síðan 22. ágúst þar sem hann hvetur fólk til að horfa á umfjöllun um stöðuna í Rússlandi.