Athugið þessi frétt er meira en 1 mánaða gömul.

Gönguleiðin lagfærð alla leið að gosinu

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RUV
Búið er að lagfæra gönguleiðina alla leið að gosstöðvunum og er hún orðin mun greiðfærari. Þetta kemur fram í nýrri stöðuskýrslu Samhæfingarmiðstöðvar Almannavarna.

Þar segir að gestum á svæðinu hafi fækkað mikið, nú komi á bilinu þúsund til fimmtán hundruð manns á dag en áður um þrjú til fjögur þúsund. Því hafi verið dregið úr veru viðbragðsaðila.

Lögreglufólk og sjúkraflutningamaður sjá um sjúkraflutninga á svæðinu. Björgunarsveitarfólk vinnur með viðbragðsaðilum fram yfir helgi til að tryggja yfirfærslu verkefna og verklags. Frekari aðkoma björgunarsveita að eftirliti og gæslu verður metin í næstu viku. 

Í skýrslunni segir enn fremur að gosórói hafi ekki mælst á gosstöðvunum síðan á sunnudagsmorgun. Engin virkni hefur verið sjáanleg í gígnum og á svæðinu síðan þá. Líklegt er að gosinu sé lokið þó of snemmt sé að segja til um það. Áfram er unnið á hættustigi Almannavarna.

ingibjorgsg's picture
Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir
Fréttastofa RÚV