Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Betra að hafa flugvöll en íbúabyggð á áhættusvæði

25.08.2022 - 09:12
Mynd: RUV / RUV
Reykjavíkurborg gerir ráð fyrir að 20-25 þúsund manns geti búið í Vatnsmýri ef flugvöllurinn fer. Lilja Karlsdóttir samgönguverkfræðingur segir betra að hafa flugvöll á mögulegu áhættusvæði vegna hraunrennslis, en að byggja fyrir þennan fjölda nærri þeim svæðum.

Fjallað var um framtíð flugvallarins í Vatnsmýri í Kastljósi á þriðjudaginn og þá óvissu sem er uppi um framtíð innanlandsflugs og hvar eða hvort byggja eigi nýjan varaflugvöll. Áform um flugvöll í Hvassahrauni eru í uppnámi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri vill nýjan flugvöll einhvers staðar á suðvesturhorninu en Icelandair vill innanlandsflugið áfram í Vatnsmýri. Engin lausn er því í sjónmáli.

Lilja Karlsdóttir samgönguverkfræðingur segir mikilvægt að taka ákvörðun sem fyrst. „Ef við ætlum ekki að byggja Vatnsmýrina, við þurfum þá að byggja fyrir fólk einhvers staðar annars staðar, og þá erum við að teygja okkur ennþá meira inn á þessi virku svæði. Viljum við það frekar heldur en að hafa flugvöll mögulega á áhættusvæði. Það vantar bara svolítið ákvarðanatökuna, að fara af stað og gera þetta almennilega, því það er rosalega vont fyrir alla hlutaðeigandi þarna á flugvellinum sérstaklega, þá er ég kannski meira að vísa í þá sem eru með minni vélarnar og einkaflugvélarnar og þetta að vera alltaf í þessari óvissu,“ segir Lilja. 

Hún var gestur Morgunútvarpsins á Rás 2 í morgun ásamt Guðmundi Kristjáni Jónssyni borgarskipulagsfræðingi. Þau voru sammála um mikilvægi þess að huga að borgarskipulagi til framtíðar. Guðmundur segir uppbyggingu í Vatnsmýri eina hagkvæmustu loftslagsaðgerðina sem hægt sé að fara í hér á landi, því þar gefist tugþúsundum færi á að komast til og frá vinnu án þess að nýta til þess einkabílinn. „Það felast gríðarleg verðmæti í þessu landi í Vatnsmýri, nú síðast var boðin út lóð, ein síðasta lóðin í Hlíðarendaskipulaginu, sex þúsund fermetra lóð sem mig grunar að hæsta tilboð höggvi nærri þremur milljörðum og það er auðvitað bara eitt lítið frímerki af þessu ógnarstóra svæði, þannig að fólk getur rétt ímyndað sér hversu mörg hundruð milljarðar liggja þarna vannýttir af fjármagni sem væri hægt að nýta þjóðfélaginu öllum til heilla, ekki bara á höfuðborgarsvæðinu heldur um allt land,“ sagði Guðmundur Kristján.