Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

FSB fullyrðir að Úkraínumenn hafi myrt Dariu Dugina

22.08.2022 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia - RÚV
Rússneska leyniþjónustan, FSB, heldur því fram að Úkraínumenn beri ábyrgð á dauða Dariu Dugina, stjórnmálaskýranda og dóttur eins nánasta samverkamanns Pútíns. Þetta kom fram í tilkynningu frá leyniþjónustunni í dag.

Dugina lést þegar sprengja sprakk í bíl sem hún ók, skammt utan við Moskvu í fyrradag. Talið er að faðir hennar hafi verið skotmarkið. Daria var, eins og faðir hennar, einarður stuðningsmaður innrásar Rússa í Úkraínu.

Í tilkynningu frá leyniþjónustunni í dag segir að morðið hafi verið skipulagt og framið af liðsmanni úkraínsku leyniþjónustunnar. Þau fullyrtu jafnframt að sú seka, úkraínsk kona fædd 1979, væri flúin til Eistlands. Leyniþjónustan segir hana heita Natalia Vovk.

Úkraínumenn neita aðild að árásinni. Yfirvöld í Úkraínu búa sig samt sem áður undir hefndaraðgerðir Rússa. Fjöldasamkomum sem áttu að fara fram á þjóðahátíðardegi Úkraínumanna, á miðvikudag, hefur verið aflýst.

Pútín: „Hryllilegur glæpur“

Vladimir Putin, Rússlandsforseti, sagði morð Dariu Dugin vera hryllilegan glæp og dásamaði líf og störf Dariu. Hann sagði hana hafa verið einstaklega vel gefinn þjóðernissinna, sem hafi verið Rússum til sóma.

„Hún sýndi með verkum sínum hvað það er í raun að vera þjóðernissinni og Rússi“ sagði Pútín. 

In this handout photo taken from video released by Investigative Committee of Russia on Sunday, Aug. 21, 2022, investigators work on the site of explosion of a car driven by Daria Dugina outside Moscow. Daria Dugina, the daughter of Alexander Dugin, the Russian nationalist ideologist often called "Putin's brain", was killed when her car exploded on the outskirts of Moscow, officials said Sunday. The Investigate Committee branch for the Moscow region said the Saturday night blast was caused by a bomb planted in the SUV driven by Daria Dugina. (Investigative Committee of Russia via AP)
 Mynd: AP - RÚV

Sprengja undir bílstjórasætinu

Daria hafði verið á listahátíð nálægt Moskvu með föður sínum, og til stóð að þau færu saman til baka til borgarinnar. Alexander Dugin ákvað hins vegar á síðustu stundu að ferðast án hennar og lánaði henni bifreið sína, Land Cruiser jeppa, sem sprakk í loft upp á þjóðvegi um fjörutíu kílómetra frá Moskvu. Rannsókn hefur þegar leitt í ljós að sprengju var komið fyrir undir bílstjórasætinu. Talið er að Daria hafi látist samstundis.

Faðir hennar, Alexander Dugin, hefur lengi verið álitinn einn helsti samstarfsmaður og hugmyndafræðingur Vladimírs Pútins Rússlandsforseta, en Daria var sjálf vinsæl blaðakona og stjórnmálaskýrandi, á sömu línu og faðir hennar.

Fréttin var uppfærð kl. 14:10