Samfélagsmiðill og greiningartól
Horseday forritið er ekki svo ósvipað forritinu Strava sem margir nota til þess að fylgjast með eigin hreyfingu og annarra. Oddur Ólafsson er framkvæmdastjóri Horseday. „Þetta er eiginlega svona samfélagsmiðill en á sama tíma greiningartól þar sem að fólk getur skráð reiðtúrinn sinn og forritið greinir gangtegund hestsins á sama tíma með skynjurum í símanum og semsagt tekur niður tíma, vegalengd og hraða,“ segir hann.
Færir hestamennskuna fram í nútímann
Þessar upplýsingar fara síðan inn í gagnagrunninn Worldfengur, sem er upprunaættbók íslenska hestsins. Þá er einnig hægt að skrá inn upplýsingar um járningar og annað utanumhald. „Þetta bætir náttúrulega gríðarlega utanumhald um hestinn yfir höfuð, bæði yfirlit yfir allt sem er gert, velferð hans og svolítið færir hestamennskuna fram í nútímann,“ segir Oddur.
Vilja aðlaga forritið öðrum hestakynjum
Í dag eru rúmlega fjögur þúsund virkir notendur víða um heim og Oddur telur framtíð forritsins bjarta: „Við sjáum fyrir okkur að þetta verði náttúrulega aðal forritið tengt þessum íslenska hestaheimi og svo í framhaldinu að þróa og aðlaga þessa lausn tengt öðrum hestakynjum annars staðar í heiminum og sjáum fyrir okkur að Horseday verði bara bæði samfélagsmiðillinn og greiningartólið fyrir þennan geira.“