Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Gosið aðeins forsmekkurinn að því sem koma skal

Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Eldgosið í Meradölum er í andarslitrunum. Ekkert gýs úr stærri gígnum en kraumar aðeins í þeim minni. Það er hægt og rólega að lognast út af segir Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðiprófessor. Gosið og það í fyrra eru þó bara formekkurinn af því sem koma skal.

Jarðvísindamenn voru við rannsóknir í Meradölum í dag og Þorvaldur Þórðarson var í samskiptum við þá úr Öskju, náttúrufræðahúsi Háskóla Íslands. Vísindmennirnir komu til baka í Öskju á sjöunda tímanum. 

Hvað segja þau Þorvaldur Þórðarson, er gosið dautt úr öllum æðum?

„Ekki alveg ennþá. Það svona aðeins kraumar í nyrðri gígnum sem var virkur í gær og í fyrradag. En sá syðri hefur alveg þagnað. Og svo er enn smá hraunlækur sem rennur úr hraunpollinum sem var fyrir vestan gígana í upphafi. Það er smá læna sem rennur til suðvesturs.“

Er einhver von, ef ég má orða það svo, að það opnist gosop annars staðar?

„Mér finnst það nú svona ólíklegt. Ég held að þetta sé nú bara svona hægt og rólega að lognast út af. Bæði óróin og aflið í gígunum sjálfum það er alveg að detta niður. Þannig að ég held að það sé alveg óhætt að við séum komin á það stig að við séum að fara að loka fyrir gos í gígunum. En það er hugsanlegt að hraun haldi áfram að flæða upp og flæði þá upp í pollinn og flæði þá bara undir skorpunni sem að þekur þennan poll. Og þá sjáum við ekki neina virkni.“

En þá er hægt að sjá, ef maður fer á kvöldin, einhverja smá glóð?

„Hugsanlega sjáum við einhvern hita líka. En hinn möguleikinn er sá að þetta gos í raun og veru að hætta.“

Er mikil kvika þarna undir ennþá í þessum gangi?

„Ég þori nú ekki að fullyrða hversu mikil kvika er í honum en það er örugglega talsvert magn af kviku sem er bæði í ganginum og eins í geymsluhólfinu neðar. Þannig að þetta eldgosatímabil það er nú bara rétt að hefjast. Og þessi gos sem við erum búin að fá nú, þau eru eiginlega, hvað á ég að segja bara svona.“

Forsmekkurinn?

„Já, kannski já, best að segja það bara; forsmekkurinn.“