Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Yfir 40 látin í skógareldum í Alsír

19.08.2022 - 01:28
epa10127251 People inspect a burnt vehicle following a wildfire in El Kala, in Al Tarf province, northeast of Algeria, 18 August 2022. Algerian Interior Minister Kamel Beldjoud announced that since the beginning of August, 106 fires have broken out, destroying 800 hectares of forest, twenty-six people have died, and several dozen others have been injured in forest fires that have affected fourteen departments in northern Algeria.  EPA-EFE/STR
Tólf manns fórust þegar þessi rúta lokaðist inni í eldhafi í El Tarf-héraði í norðausturhluta Alsír í gær, fimmtudag Mynd: EPA-EFE - EPA
Fórnarlömbum skógarelda sem logað hafa í norðanverðu Alsír síðustu daga fjölgar enn og eru orðin minnst 40 talsins. Í frétt AFP segir að minnst tíu börn og jafnmargir slökkviliðsmenn séu á meðal hinna látnu.Tólf manns fórust þegar smárúta sem þau voru í lokaðist inni í eldhafi. Yfir 200 manns hafa ýmist hlotið brunasár, reykeitrun eða hvort tveggja í eldunum, sem eru að mestu bundnir við norðurhluta landsins og fjalllendið þar.

Heitast brenna þeir í El Tarf-héraði, nærri landamærum Alsír og Túnis. Stjórnvöld eru sökuð um að hafa verið illa undir eldana búin, þrátt fyrir að þeir séu árlegur vágestur á þessum slóðum. Þar hefur hitinn farið upp í 48 gráður síðustu daga og skapað kjöraðstæður fyrir slíkar hamfarir.

Nýjustu fregnir herma að slökkviliði hafi tekist að koma böndum á skæðustu eldana. Alls hafa 45 farist í skógareldum í Alsír það sem af er ágústmánuði. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV