Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Víðtæk verkföll setja almenningssamgöngur úr skorðum

19.08.2022 - 05:29
epa10127447 Closed train tracks at Waterloo Station in London, Britain, 18 August 2022. National rail strikes across Britain are causing major rail disruption amidst ongoing rail strikes, that have seen some forty  thousand rail workers go out on strike over pay.  EPA-EFE/ANDY RAIN
Verkfallsverðir á brautarpalli í Waterloo-jarnbrautarstöðinni í Lundúnum á fimmtudag Mynd: EPA-EFE - EPA
Lestarsamgöngur voru meira og minna í lamasessi í Bretlandi í gær vegna sólarhringsverkfalls járnbrautastarfsfólks. Svo verður einnig á morgun, en í dag má reikna með að jarðlesta- og strætisvagnasamgöngur gangi úr skorðum í höfuðborginni Lundúnum.

Verðbólga mælist nú ríflega tíu prósent í Bretlandi og hefur ekki verið meiri í 40 ár. Laun hafa hins vegar ekki hækkað í takt við ört hækkandi framfærslukostnaðinn. Því mótmæltu yfir 45.000 starfsmenn járnbrautanna með því að mæta ekki til vinnu í gær, sem leiddi til þess að einungis um 20 prósent áætlaðra lestarferða voru farnar.

Þúsundir járnbrautarstarfsmanna sátu líka heima á þriðjudag og aðgerðunum, sem eru sagðar þær víðtækustu í þessum geira breska atvinnulífsins í 30 ár, verður svo fram haldið í dag með verkfalli kollega járnbrautastarfsfólksins hjá jarðlesta- og strætisvagnafyrirtækjum Lundúna.

Á morgun fer starfsfólk járnbrautalestanna svo í þriðja sólarhringsverkfallið og taka strætisvagnabílstjórar höfuðborgarinnar einnig þátt í því.

Samningar eru lausir milli fyrirtækja og starfsfólks í fólksflutningageiranum og viðræður hafa gengið hægt og illa. Með hækkandi verðbólgu hefur aukinn þungi færst í kröfuna um launahækkanir sem munar um, en einnig er tekist á um aðbúnað, vinnutíma, lífeyrisréttindi og fleira, segir í frétt The Guardian.