Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Tyrkir lýsa yfir stuðningi við Úkraínu

19.08.2022 - 08:15
Mynd: EPA-EFE / EPA-EFE
Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, lýsti í dag yfir stuðningi við Úkraínumenn í stríðinu við Rússa. Þeir hafa til þessa viljað halda sig að mestu til hlés vegan átakanna. Erdogan og Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna voru í Úkraínu í dag til að ræða kornútflutning landsmanna og hvað væri unnt að gera til að hraða honum. Einnig ræddu þeir mögulegar leiðir til að koma á friði eftir diplómatískum leiðum.

Í Líbanon er skortur á brauði. Þegar það fæst eru langar biðraðir utan við bakaríin. En landsmenn stynja undan kostnaðinum, þótt brauð sé niðurgreitt í landinu. Pakki með sex flatkökum kostar þrettán þúsund líbönsk pund, um það bil tólf hundruð krónur. Á svarta markaðinum er það allt að tvöfalt dýrara.

Innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar olli skorti á korni í heiminum. Sameinuðu þjóðirnar og alþjóðlegar hjálparstofnanir vöruðu við hungursneyð á viðkvæmustu stöðunum. Fyrir milligöngu Tyrkja tókust samningar milli Úkraínumanna og Rússa í júlí um að útflutning á hveiti og öðrum kornvörum frá þremur úkraínskum höfnum við Svartahaf næstu fjóra mánuði.

Ekki rétta kornið

Vonir glæddust í Líbanon í síðasta mánuði þegar fyrsta skipið lét úr höfn í Odesa með 26 þúsund tonn af korni sem til stóð að afferma í hafnarborginni Trípólí. Af því varð þó ekki. Kaupandinn sagði að sendingin væri fimm mánuðum á eftir áætlun og hann hefði keypt korn annars staðar.

Að auki var þetta ekki rétta kornið. Þýska fréttastofan DPA hafði eftir Hani Bushali, formanni Sambands líbanskra matvælainnflytjenda, að Líbana hefði vantað hveiti til manneldis en ekki korn til að fóðra kvikfénað. Flutningaskipið Razoni þurfti því að bíða í nokkra sólarhringa á Miðjarðarhafi þar til kaupandi fannst í Tyrklandi.

 

Á þriðja tug skipa hafa látið úr höfn

Frá því að samningar tókust hafa 24 flutningaskip látið úr úkraínskum höfnum með um það bil sjötíu þúsund tonn af hveiti, hveitiklíði, korni í skepnufóður, sólblómamjöli og fleiri afurðum. Úkraínumenn settu sér það markmið að lesta hundrað skip á mánuði og senda til annarra landa með um þrjár milljónir tonna af hráefnum í matvæli og áburði.

Samhæfinarstöðin í Istanbúl sem hefur eftirlit með útflutningnum bjóst við þremur skipum til viðbótar í dag. Þrjú létu úr höfn í gær. Eitt þeirra, The Brave Commander, er á leið til Eþíópíu á vegum Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna með 23 þúsund tonn af hveiti, að því er Stéphane Dujarric, talsmaður aðalframkvæmdastjóra samtakanna, greindi frá á fundi með fréttamönnum.

Ófremdarástand á Sómalíuskaga

Fram hefur komið að ástandið í löndum í Sómalíuskaga og víðar í norðausturhluta Afríku er afar alvarlegt um þessar mundir. Þar er uppskerubrestur vegna þurrka, ásamt skorti á hveiti og öðrum kornvörum vegna stríðsins í Úkraínu, sem hefur valdið verðhækkunum á því hráefni sem á annað borð stendur þessum þjóðum til boða. Ástandið er slæmt víðar í fátækustu ríkjum heims sem iðulega er rakið til loftslagsbreytinga.

Stephane Dujarric greindi fréttamönnum jafnframt frá því að Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri, Recep Tayyip Erdogan, forseti Tyrklands, og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, ætluðu að koma saman í dag í borginni Lviv, nálægt landamærum Póllands og Úkraínu til að ræða hvernig kornútflutningurinn hefði gengið til þessa.

Guterres fer síðan til Odesa á morgun til að kanna þar aðstæður og er síðan væntanlegur í samræmingarstöð kornútflutninganna í Istanbúl á laugardag. Sameinuðu þjóðirnar taka virkan þátt í átakinu og taka þátt í eftirliti með því að það gangi samkvæmt samkomulaginu frá því í júlí. Guterres sagði einmitt þegar það var undirritað að afar miklu máli skipti að allir stæðu við sitt þar sem þjóðir þriðja heimsins væru þjakaðar af verðhækkunum að undanförnu og að hungursneyð blasti við fjölda fólks.

Að viðræðum loknum sagði Antonio Guterres að Sameinuðu þjóðirnar vildu auka útflutninginn frá Úkraínu áður en vetur gengur í garð og ítrekaði ánægju sína með að samningar hefðu yfirleitt náðst.

Fleira en kornútflutninginn bar á góma á fundi framkvæmdastjórans og forsetanna. Í tilkynningu sem send var út um viðræður þeirra sagði að þeir hygðust leita leiða á hinu pólitíska sviði til að stöðva Úkraínustríðið.

Tyrkir styðja Úkraínumenn

Zelensky sagði eftir fundinn með Erdogan að hann hefði verið árangursríkur. Tyrkir hafa til þessa ekki viljað blanda sér í deiluna, en Erdogan lýsti því yfir undir kvöld að þeir stæðu með Úkraínumönnum í deilunni við Rússa. Þá kvaðst hann óttast að aðrar Chernobyl-hörmungar væru yfirvofandi vegna ástandsins við kjarnorkuverið í Zaporizhzhia í Úkraínu sem Rússar nýta sem herstöð. Stjórnvöld í Kænugarði og bandamenn þeirra saka Rússa um árásir á kjarnorkuverið, en Rússar segja að Úkraínuher hafi sjálfur staðið að árásunum.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV