Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Rússar auka enn vígbúnað sinn í Kalíníngrad

19.08.2022 - 04:31
In this handout photo taken from video released by Russian Defense Ministry Press Service on Thursday, Aug. 18, 2022, three MiG-31 fighter jets of the Russian air force stand after lending at the Chkalovsk air base in the Kaliningrad region. The Russian Defense Ministry said three MiG-31 fighters equipped to carry Kinzhal hypersonic missiles were deployed to the region as part of "additional measures of strategic deterrence." (Russian Defense Ministry Press Service photo via AP)
MiG-31 herþoturnar þrjár sem búnar eru ofurhljóðfráum Kinzhal-eldflaugum, á herflugvellinum í Kalíníngrad. Myndin er skjáskot úr myndbandi sem fylgdi tilkynningu rúsneska varnarmálaráðuneytisins um flutning vélanna og eldflauganna til hólmlendunnar, sem liggur að Eystrasaltinu, Póllandi og Litáen. Mynd: AP - RÚV
Rússneska varnarmálaráðuneytið tilkynnti í gær að herþotur búnar ofurhljóðfráum eldflaugum hafi verið sendar til rússnesku hólmlendunnar Kalíníngrad og séu þar í viðbragðsstöðu. Kalíníngrad liggur að Eystrasalti og á landamæri að ESB- og NATO-ríkjunum Litáen og Póllandi. Ofurhljóðfráar eldflaugar ferðast á fimmföldum hraða hljóðsins eða þaðan af hraðar og eru því erfiðari viðfangs fyrir eldflaugavarnakerfi hvers konar.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að þrjár MiG-31 orrustuþotur búnar slíkum flaugum séu nú á Tsjkalovsk-herflugvellinum í Kalíningrad sem hluti af „auknum aðgerðum til að styrkja hernaðarlegan fælingarmátt,“ og að þær séu reiðubúnar til flugtaks og bardaga allan sólarhringinn.

Hernaðaruppbygging í Kalíníngrad svar Rússa við hernaðaraðstoð Vesturlanda

Kalíníngrad hefur verið í stóru hlutverki í vopnaskaki Rússa og Vesturlanda frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu í febrúar síðastliðnum. Rússnesk stjórnvöld gagnrýna Vesturlönd harðlega fyrir að sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum og saka Bandaríkin og bandamenn þeirra um að kynda þannig ófriðarbálið og framlengja stríðið.

Hafa Rússar meðal annars brugðist við þessu með því að stórauka víg- og viðbúnað sinn í Kalíníngrad, þaðan sem stutt er til fjölda NATO- og ESB-ríkja. Þeir hafa fjölgað talsvert í herliði sínu þar og flutt þangað mikið af hátæknivopnum, svo sem Iskander-stýriflaugar og fullkomin loftvarnarkerfi. Nýjasta viðbótin, ofurhljóðfráu Kinzhal-eldflaugarnar á MiG-þotunum þremur, eru sagðar fljúga á tíföldum hljóðhraða og draga allt að 2.000 kílómetra.