Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Ríkisstjórnin hafi hlutverk en sjái ekki um að semja

19.08.2022 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Fjármálaráðherra segir að stjórnvöld hafi hlutverki að gegna í tengslum við kjaraviðræður, en komi ekki að samningaviðræðunum sjálfum. Það sé aðila vinnumarkaðarins.

Forseti Alþýðusambandsins og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafa ekki litið hlutverk stjórnvalda við gerð kjarasamninga sömu augum. ASÍ kallar eftir aðkomu ríkisins, en atvinnurekendur telja það vera aðila vinnumarkaðarins að gera kjarasamninga. Fjármálaráðherra telur ríkið gegna þar hlutverki.

„Ég held að ríkisstjórnin hafi alltaf hlutverki að gegna og við höfum reynt að nýta þjóðhagsráðið til þess að sýna á spilin. Við erum að vinna, til dæmis, áætlanir í   opinberum fjármálum til lengri tíma núna heldur en áður og þétta þannig grunninn fyrir stöðugleika í landinu. Það er vettvangur sem ekki síst hugsaður til þess að það sé tryggt að sjónarmið hafi komið fram og að þeim hafi að einhverju leyti verið svarað, en mér finnst ríkisstjórnin í sjálfu sér með mjög breyttu verklagi hafa lagt grunn og sýnt á spilin, eins og ég segi, til þess að auðvelda aðilunum að ná saman,“ segir Bjarni Benediktsson.  

Hann nefnir sem dæmi hvernig unnið hefur verið að lausn á húsnæðisvandanum. Í þjóðhagsráði hafi verið myndaður starfshópur sem kom með tillögur sem stjórnvöld settu í ákveðinn farveg og innviðaráðherra sé að vinna að útfærslu þeirra hugmynda.

„Við höfum verið að bregðast við ábendingum um hluti sem mættu betur fara, þar vantar framboð af húsnæði, en að öðru leyti finnst mér að stjórnvöld eigi að halda sig frá hinum eiginlegu samningaviðræðum, aðilarnar verða að axla ábyrgðina á því að ná saman.“

Bjarni segir stjórnvöld ekki geta litið í hina áttina ef hlutir þróast í verri áttina eins og varðandi húsnæðisvandann og verðbólguna svo dæmi sé tekið. Það sé hins vegar alfarið aðila vinnumarkaðarins að sjá um að semja, ríkisstjórnin eigi ekki sæti við það borð.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV