Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Heimsmet með millilendingu á Íslandi

19.08.2022 - 19:28
Innlent · flug · Heimsmet
Mynd: Kristín Sigurðardóttir / RÚV
Sautján ára bresk-belgískur flugmaður reynir að slá heimsmet og verða yngstur til að fljúga einn í kringum hnöttinn. Hann er sautján ára og lenti á Reykjavíkurflugvelli í dag, nákvæmlega einu ári eftir að systir hans lenti þar en hún setti heimsmet og varð yngst kvenna til að fljúga ein í kringum hnöttinn. 

Mack Rutherford lenti á Reykjavíkurflugvelli síðdegis og fékk viðhafnarbað frá slökkviliði. Mack lagði af stað í hnattflugið í mars, þá sextán ára. Hann er nú orðinn sautján ára 

„Þetta var afar ljúft flug. Ég lagði upp frá Grænlandi og sólin skein á heiðum himni yfir jöklinum. Það var æði. En eftir þriggja tíma flug varð lágskýjað og allmikil rigning á Atlantshafi. Það tók dálítið á. En svo fór að létta til og nú er ég hér í Reykjavík,“ segir Mack.

Foreldrar Mack eru flugmenn og systir hans Zara. Fyrir sléttu ári lenti hún á Reykjavíkurflugvelli. Hún setti heimsmet sem yngsta konan til að fljúga ein í kringum hnöttinn, þá 19 ára. Zara flaug yfir eldgosið sem þá stóð yfir á Reykjanesskaga. Mack flaug yfir gosið nú.

„Það er ótrúlegt að við bæði fengum sitt hvort eldgosið. Ég er hæstánægður,“ segir Mack. 

Mack segist hitta mikið af fólki fyrir og eftir flugferðirnar og verði því ekki einmana.

Hvað er erfiðast við þetta?

„Að vera ákveðinn í að halda áfram. Það er stundum freistandi að leggja árar í bát en maður verður að halda áfram,“ segir Mack. 

Mack stefnir á að ljúka ferðinni og slá heimsmetið eftir fimm daga í Búlgaríu
 

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV